Þveráll

extrasDictionaryLang extrasDictionarySynonyms
Latin: Simenchelys parasitica
Danish: Snylteål
English: Snubnosed eel
French: Anguille à nez court

Þveráll er langvaxinn, sívalur að framan en þunnvaxinn aftan raufar, mesta hæð er um miðja vegu á milli eyruggaenda og raufar. Haus er sver og sívalur, þver við framenda, fremri nasir eru endastæðar túpur, aftari nasir eru raufar sem liggja rétt framan við augu. Kjaftur er endastæður, kjálkar eru stuttir og sterkir, miðskoltsbein og efraskoltsbein eru samvaxin í eina heild. Tennur eru í einfaldri röð, smáar, rúnnaðar og þéttstæðar, engar tennur eru á plógbeini. Augu eru lítil og kringlótt. Tálknaop eru lágstæð undir eyruggum og ekki samvaxin. Bakuggi er mjög langur, byrjar upp af enda eyrugga, raufaruggi styttri og eru þeir samvaxnir við litla sporðblöðku. Eyruggar eru greinilegir. Hreistur er mjög smátt.

Þveráll getur náð a.m.k. 60 cm lengd, jafnvel allt að 100 cm samkvæmt sumum heimildum.

Litur er gráleitur til dökkbrúnn, dekkri á jöðrum ugga og á rák. Ungir þverálar eru fölleitir og með svartan kvið. Hryggjarliðir: 116-125, þar af 45-49 stirtluliðir.

Heimkynni: Í Atlantshafi austanverðu er þveráll þekktur frá Frakklandi til Madeira, Asóreyjum, Kanaríeyjum og Marokkó, einnig Grænhöfðaeyjum og Suður Afríku. Í vestanverðu Atlantshafi hefur hann veiðst í hafdjúpunum sunnan Nýfundnalands, undan ströndum Nýja-Skotlands, Bandaríkjanna og Brasilíu. Í Kyrrahafi er hann undan ströndum Japans, Astralíu, Nýja-Sjálands og Hawaii. Hér við land veiddist einn 41 cm langur í september árið 2011 á 1276-1297 m dýpi á djúpkantinum vestur af Snæfellsnesi (64°28'N, 28°42'V til 64°31'N, 28°38'V).

Lífshættir: Botn- og miðsævisdjúpfiskur sem hefur veiðst á 136 til 2620 metra dýpi, en oftast veiðist hann á 500-1800 metra dýpi í landgrunnshallanum í 4°-9°C heitum sjó. Á sumum svæðum hafa fjölmargir þverálar veiðst á stuttum tíma, sem gæti gefið til kynna staðbundinn þéttleika eða torfumyndun.

Fæða ungviðis eru botnlægar krabbaflær og marflær. Fullorðnir virðast þverálar vera sérhæfðar hræætur, ekki ólíkt slímálum. Þverálar hafa verið grunaðir um að lifa sníkjulífi í fiskum, en nú er talið að þeir séu í mesta lagi tækifærissinnar í sníkjulífi sem nota tækifæri sem bjóðast til að bora sig inn í sjúka eða deyjandi fiska.

Um hrygningu er lítið vitað. Eggin eru talin vera sviflæg.

 

Byggt á bókinni, Íslenskir fiskar. ( Mál og menning 2013), Höfundar: Gunnar Jónsson og Jónbjörn Pálsson. (2013).

Did you find the content of this page helpful?