Þorskur

extrasDictionarySynonymsIcelandic:
þyrsklingur
extrasDictionaryLang extrasDictionarySynonyms
Latin: Gadus morhua
Danish: Torsk
Faroese: Torskur
Norwegian: torsk, Skrei
Swedish: Torsk
Plish: Pomuchel
English: Atlantic cod, cod
German: Dorsch, Kabeljau
French: cabillaud, morue, morue de l'Atlantique, morue franche
Spanish: bacalao, bacalao del Atlántico
Portuguese: bacalhau, bacalhau-do-Atlantico
Russian: Треска, Treská

Þorskur er straumlínulaga og rennilegur fiskur, hausstór, kjaftstór, undirmynntur og með stór augu. Á höku er áberandi skeggþráður. Þorskurinn er hæstur rétt framan við miðju en fer smámjókkandi til endanna. Bakuggar eru þrír og er miðugginn lengstur. Raufaruggar eru tveir og sá fremri stærri en sá aftari. Sporðblaðka er stór og þverstýfð fyrir endann. Eyruggar eru vel þroskaðir. Kviðuggar eru framan við eyrugga. Hreistrið er smátt, rák er ljós og greinileg.

Í júlí 1940 veiddist 169 cm langur og 40 kg þorskur í Barentshafi. Þetta var 24 ára gömul hrygna og taldist lengi stærsti þorskur sem veiðst hefði í norðaustanverðu Atlantshafi. Þá á að hafa veiðst nærri 2 m langur þorskur og 73 kg við Nýfundnaland árið 1926. Í ritinu Atlantic Fishes of Canada (útgefið 1988) er þess getið að 95,9 kg þorskur hafi veiðst undan Massachusetts í Bandaríkjunum árið 1895. Það hefur verið óhemju vænn þorskur en lengdar er ekki getið. Í mars 1998 veiddist 186 cm þorskur og 17 ára gamall í botnvörpu á Reykjanesgrunni. Er þetta stærsti þorskur sem veiðst hefur á Íslandsmiðum og sennilega í Norðaustur-Atlantshafi. Í apríl 1941 veiddist 181 cm þorskur á línu í Miðnessjó. Hann var ekki aldursákvarðaður. Á Skjálfanda (sennilega árið 1975) veiddist 167 cm þorskur, í maí 1991 veiddist 18 ára gamall og 167cm langur þorskhængur við Berufjarðarál og í mars 1993 veiddist einn 167 cm og 45 kg þungur út af Eystrahorni.

Litur er mjög breytilegur eftir aldri og umhverfi. Algengasti liturinn er gulgrár á baki og hliðum með þéttum, dökkum smáblettum. Að neðan er þorskurinn ljósari og hvítur á kvið. Ýmis litaafbrigði eru til. Þannig fá fiskar í þara, svokallaðir þaraþyrsklingar, á sig rauð- eða brúnleitan blæ.

Geislar: Bl: 12-16;- B2: 16-21;- B3: 17-20; Rl: 17-23,-R2: 15-19; hryggjarliðir: 50-55.

Heimkynni þorsksins eru beggja vegna í Norður-Atlantshafi. Í Norðaustur-Atlantshafi er hann frá Svalbarða og Novaja Semlja í Barentshafi inn í Hvítahaf og meðfram ströndum Noregs suður í Eystrasalt og Norðursjó, allt umhverfis Bretlandseyjar og suður í Biskajaflóa. Hann er við Færeyjar og Ísland og Austur-Grænland. Í norðvestanverðu Atlantshafi er hann við suðvestan- og vestanvert Grænland og meginland Ameríku frá sunnanverðu Baffinslandi og Labrador suður til Nýfundnalandsmiða og Hatteras- höfða í Norður-Karólínuríki. Í Kyrrahafi er einnig þorskur, s.k. kyrrahafsþorskur. Sumir telja hann vera undirtegund, Gadus morhua macrocephalus, en aðrir telja hann vera sérstaka tegund, Gaius macrocephalus. Hann lifir við vesturströnd Bandaríkjanna frá Suður-Kaliforníu til Oregon, Washington og Kanada, Alaska, Japan og Kóreu.

Í Norður-Atlantshafi eru ýmsir þorskstofnar sem greinast í sundur að útbreiðslu, vexti og kynþroska. Meðal stofna í Norðaustur-Atlantshafi eru Barentshafsstofninn, íslenski stofninn og stofnarnir við Grænland. Þá eru stofnar við Færeyjar, í Norðursjó, Eystrasalti og víðar. Í norðvestanverðu Atlantshafi var stærsti stofninn við Labrador og Nýfundnaland, en hann hrundi um 1990.

Lífshættir: Þorskurinn er botnfiskur sem lifir á ýmsu dýpi, allt frá nokkrum metrum og niður á 600 m eða dýpra. Hér við land er þorskurinn algengastur á 100-400 m en veiðist sjaldan dýpra en á 550 m. Hann fer oft upp um sjó í ætisleit en heldur sig mest í botnnánd eða við botn á alls konar botni, m.a. grýttum hraunbotni, kóralbotni eða þarabotni og einnig sand- eða leirbotni.

Þorskurinn kann best við sig við 4-7°C hita en finnst þó við allt frá 0°C til 16 og jafnvel 20°C hita. Hann er ekki heldur mjög viðkvæmur fyrir seltu því hann getur verið í fullsöltum sjó sem og í ísöltu vatni árósa.

Merkingar sýna að íslenski þorskurinn er allstaðbundinn fyrstu ár ævinnar eða þar til kynþroska er náð. Mestur hluti stofnsins í kalda sjónum gengur þá til hrygningar í heitari sjó. Einnig gengur þorskur stundum af Grænlandsmiðum til hrygningar við suðvesturströnd Íslands. Merkingar við Grænland og Ísland hafa leitt í ljós að þorskur merktur við Vestur-Grænland gengur til Austur- Grænlandsmiða og stundum til Íslandsmiða þegar hann verður kynþroska. Einnig gengur kynþroska þorskur frá Austur-Grænlandi til Íslands og ókynþroska stundum suður fyrir Hvarf til Vestur-Grænlandsmiða. Enda þótt þorskar merktir við Ísland hafi veiðst við Grænland, Noreg, í Norðursjó og jafnvel einu sinni við Nýfundnaland eru þetta engar reglulegar göngur heldur frekar tilviljanakenndur flækingur. Því er ekki um neinar eiginlegar göngur þorsks að ræða af Íslandsmiðum til Grænlandsmiða, hvorki kynþroska né ókynþroska fisks. Á hinn bóginn rekur þorskegg og lirfur með straumum frá Íslandsmiðum til Austur-Grænlandsmiða. Einnig rekur egg og lirfur frá Austur-Grænlandsmiðum suður fyrir Hvarf til Vestur-Grænlandsmiða.

Það má því segja að grænlenski þorskurinn sé af íslenskum uppruna þar sem hann hefur borist sem seiði með straumum til stranda Grænlands. Annaðhvort eru hrygningarskilyrði við Grænland honum óhentug þegar hann leitar til Íslandsmiða eða hann leitar til gotstöðva sinna líkt og laxinn og fleiri fiskar gera þegar kall náttúrunnar kemur.

Þorskur sem vex upp við suður- og vestur- ströndina er að miklu leyti staðbundinn alla ævi. I Faxaflóa er ókynþroska þorskur staðbundinn árið um kring en einnig kemur þangað kynþroska þorskur sem hrygnir þar á vorin. Að lokinni hrygningu við suður- og suðvesturströndina kemur oft þorskur sem er á leið norður á bóginn í ætisleit í Faxaflóa. Þorskurinn sem elst upp fyrir Norðurlandi leitar að mestu leyti í hlýja sjóinn til hrygningar þegar hann verður kynþroska enda þótt hrygning eigi sér einnig stað undan Norðurlandi. Þorskur allt austur í Skjálfandaflóa fer vestari leiðina suður til hrygningarstöðvanna. Þorskur austan Langaness og við Austfirði fer hins vegar austari leiðina til hrygningarstöðvanna við suðurströndina.

Þorskurinn er mjög gráðugur fiskur og má segja að hann éti allt sem að kjafti kemur og hann ræður sæmilega við. Í mögum þorska hafa fundist flestir ef ekki allir hópar sjávardýra. Má nefna dýr eins og svampa, sæfífla, snigla, samlokur (kúskel, krækling, öðu), smokkfisk, burstaorma, lítil og stór krabbadýr (marflær, ljósátu, rækju, humar, humrung, tengling, marþvara, trjónukrabba, kuðungakrabba), svo og egg og lirfur ýmissa krabbadýra. Einnig skrápdýr (krossfiska, slöngustjörnur, sæbjúgu), möttuldýr, egg, svifseiði og seiði fiska sem og fjölda fullorðinna fiska (síld, silfurfiska, loðnu, laxsíldir, þyrskling, ískóð, smáýsu, smálýsu, kolmunna, spærling, sandsíli, mjóna, mjóra, smákarfa, flatfiska og fleiri). Þá hafa fundist í þorskmögum leifar fugla (lunda, svartfugls), ýmis hræ og niðurburður, þang og þari, steinar og fleira. Langmikilvægasta fæðan fyrir fullorðinn þorsk (50-90 cm) er loðna. Einnig étur þorskurinn mikið af rækju, síli og öðru fiskmeti. Smæsti þorskurinn étur einkum dýrasvif eins og ljósátu, sviflægar marflær, krabbaflær og fleira. Eftir því sem hann stækkar (10-30 cm) færist hann meira í fang og leggst á burstaorma, botnlægar marflær auk botnkrabbadýra, skrápdýra, snigla og samlokuskelja. Stór þorskur étur stundum minni þorsk. Annars er fæða þorsks mjög breytileg eftir svæðum, árstímum og því sem í boði er.

Hrygning hefst hér við land síðari hluta vetrar, þ.e. í mars við suðurströndina og er að mestu leyti lokið í byrjun maí. Þorskurinn hrygnir við 5-7°C og er aðalhrygningarsvæðið á 40-100 (150) m dýpi frá Meðallandsbug að Reykjanesi. Einnig á Eldeyjarbanka og út af Faxaflóa. Við Vestfirði og undan Norðurlandi hefst hrygning síðar, t.d. ekki fyrr en um mánaðamótin apríl - maí við Norðurland. Hrygningin fer fram nálægt botni eða miðsævis eftir hitastigi. Rannsóknir á hegðun þorsks í búrum sýna að hængurinn og hrygnan snúa kviðum saman um leið og egg og sæði losna. Hængarnir gefa frá sér hljóð sem kemur frá sundmaganum. Eggjafjöldinn eykst með stærð hrygnu. Í 80 cm langri hrygnu geta verið um milljónir eggja en 4,3 milljónir í 100 cm langri hrygnu. Eggin eru glær svifegg, um mm að þvermáli. Klakið tekur um 10- 20 daga eftir hitastigi og eru seiðin um 4 mm við klak. Þegar seiðin eru orðin þriggja mánaða gömul fara þau að leita botnsins og hafa þá dreifst með straumum langt frá hrygningarslóðunum. Þannig getur þorskseiði klakið á Selvogsbanka borist með straumum til Grænlands eins og þegar hefur verið getið.

Að lokinni hrygningu dreifir fullorðni þorskurinn sér og margir halda í humátt á eftir seiðunum vestur og norður með landi í fæðuleit. Einhverjir verða þó eftir og aðrir halda austur fyrir, þ.e. þeir sem hrygnt hafa austast við suðurströndina.

Vöxtur þorsksins er mjög mismunandi og fer m.a. eftir hitastigi sjávar, fæðumagni o.fl. Vöxturinn er mun hraðari í hlýja sjónum sunnan- og suðvestanlands en norðan- lands og austan.

Þorskurinn er kallaður ýmsum nöfnum eftir stærð: blóðseiði á fyrsta og öðru aldursári, smá- þyrsklingur 20-30 cm, þyrsklingur 30-50 cm, stútungur 50-70 cm en síðan bara þorskur og þeir allra stærstu golþorskar eða aular.

Hér við land nær þorskurinn kynþroska 4—6 ára í heitum sjó sunnan- og suðvestanlands en 6—9 ára í kalda sjónum norðanlands. Þorskurinn hrygnir árlega eftir að hann nær kynþroska og getur náð a.m.k. 24 ára aldri ef heppnin er með honum. Hjá Hafrannsóknastofnun hafa verið skráðir fimm þorskar, 103-128 cm langir, sem voru 20 ára gamlir. Þrír þeirra veiddust árið 2000 en hinir 1980 og 1986. Í ritinu Atlantic Fishes of Canada segir að þorskur geti orðið 26 ára og jafnvel 29 ára gamall.

Óvinir þorsksins eru margir, auk mannskepnunnar. Seiði eru ásótt af stærri fiskum og auk þess af alls konar fuglum eins og svartfugli, mávum og fleirum. Stærsti þorskurinn verður fyrir áreitni hvala, sela og hákarls. Þá láta sníkjudýr þorskinn ekki í friði, hvorki útvortis né innvortis. Af innvortis sníkjudýrum er þekktastur hringormur sem á vísindamáli heitir Pseudoterranova decipiens. Hann lifir sem kynþroska dýr í maga sela en sem lirfa í þorski. Í tálknum þorsksins lifir krabbadýr nefnt illa, Lernaeocera branchialis. Þá verður oft vart krypplinga eða dvergvaxinna fiska meðal þorsksins, eða þorska með vanskapaðan haus, svokallaðra þorskkónga.

Nytjar: Nytsemi þorsksins er mjög mikil. Fiskurinn er og hefur alla tíð verið með allra nytsömustu fiskum fjölda þjóða þótt fáar eða engar hafi verið jafn háðar honum og Íslendingar.

Árið 1956 náði þorskaflinn í Norðaustur- Atlantshafi hámarki og varð tæpar 2,7 milljónir tonna. Þar af veiddist tæplega 481 þúsund tonn á Íslandsmiðum. Mestur varð þorskaflinn hér við land árið 1954, rúm 547 þúsund tonn og veiddu Íslendingar um 306 þúsund tonn af þeim afla. Afli Íslendinga varð mestur rúm 460 þúsund tonn árið 1981. Aflinn hefur hins vegar dregist mjög saman undanfarin ár.

Byggt á bókinni, Íslenskir fiskar. ( Mál og menning 2013), Höfundar: Gunnar Jónsson og Jónbjörn Pálsson. (2013).

Did you find the content of this page helpful?