Sverðfiskur

extrasDictionaryLang extrasDictionarySynonyms
Latin: Xiphias gladius
Danish: Sværdfisk
Faroese: Svørðfiskur
Norwegian: Sverdfisk
Swedish: Svärdfisk
Plish: Wlócznik
English: Swordfish
German: Schwertfisch
French: Espadon
Spanish: Espardarte
Portuguese: Espadarte

Sverðfiskur er auðþekktur á langri trjónunni sem gengur fram úr hausnum. Það er efri skolturinn sem teygist svona langt fram. Að öðru leyti er þetta langvaxinn og rennilegur fiskur. Haus er allstór og eru fullorðnir fiskar tannlausir. Á ungum fiskum er bakuggi einn, langur og hár, þrístrendur fremst en fer síðan lækkandi aftur eftir þar til hann rís aftast. Á eldri fiskum er bakuggi tvískiptur. Sá fremri er hár og hornlaga en sá aftari er örlítill. Raufaruggi er mun minni en bakuggi og skiptist einnig með aldrinum. Sporður er stór og hálfmánalaga. Stirtla er sterkleg og holdugur kjölur hvorum megin. Eyruggar eru stórir. Kviðugga vantar. Fullorðnir fiskar eru hreisturlausir. Algeng stærð sverðfisks er 2-3 metrar en getur orðið um 5(- 6) metrar þegar „sverðið" er mælt með.

Litur: Sverðfiskur er dökkpurpurablár eða blásvartur á lit að ofan og með málmgljáa, hliðar eru blágráar og kviður er Ijós eða hvítur. Trjóna er nærri svört að ofan en ljós að neðan. Uggar eru allir dökkir með silfurgljáa.

Geislar: Bl: 111 + 35-46,- B2: 4,- Rl: 12-16,- R2: 3-5,- hryggjarliðir: 26-27.

Heimkynni sverðfisks eru í tempruðu hlutum allra heimshafa heimsálfa á milli. Einnig í Miðjarðar- og Svartahafi. Í austanverðu Atlantshafi er hann frá Bretlandseyjum til Suður-Afríku og flækingar í Norðursjó, við Noreg og einu sinni er vitað til að hann hafi flækst til stranda Íslands. Í vestanverðu Atlantshafi finnst sverðfiskur frá Nýfundnalandi suður til Argentínu.

Hér fannst sverðfiskur rekinn á fjörur við Breiðdalsvík í júlímánuði árið 1936. Hann var 278 cm á lengd. Þá hefur orðið vart sverðfisks langt utan íslenskrar lögsögu suður af landinu við túnfiskveiðar Japana þar og heimild er í veiðiskýrslum um einn sem veiddist innan íslenskrar fiskveiðilögsögu um 170-180 sjómílur suður af Vestmannaeyjum (60°33'N, 21°26'V) í september árið 1998.

Lífshættir: Sverðfiskur er úthafs-, uppsjávar- og yfirborðsfiskur sem finnst frá yfirborði og niður á 800 m dýpi. Oft gnæfir bakuggi og efri hluti sporðblöðku upp úr yfirborði sjávar. Sverðfiskurinn fer oftast einförum og sjaldan fara fleiri en tveir saman.

Fæða er alls konar uppsjávarfiskar eins og síld, sardína, makríll, þorskfiskar og einnig smokkfiskur.

Hrygning fer fram í úthafinu (einnig í Miðjarðarhafi) þar sem hitinn er 20-23°C. Í Atlantshafi fer hrygning fram í febrúar til apríl og í Miðjarðarhafi í júní til ágúst. Í sunnanverðu Þanghafi hrygnir hann á vorin. Egg eru sviflæg, 1,6-1,8 mm í þvermál. Seiði eru 4 mm við klak. Þau líkjast lítið foreldrum sínum, eru t.d. trjónulaus og í skoltum þeirra eru margar stórar og hvassar tennur. Þegar seiðin eru orðin um 10 cm löng eru þau komin með trjónu eða „sverð".

Nytjar: Sverðfiskveiðar hafa verið stundaðar frá alda öðli í Miðjarðarhafi og síðan við strendur Bandaríkjanna og víðar. Sverðfiskur er eftirsóttur matfiskur og er veiddur á línu, í reknet eða skutlaður en einnig er hann vinsæll fiskur til sportveiða á stöng.

 

Byggt á bókinni, Íslenskir fiskar. ( Mál og menning 2013), Höfundar: Gunnar Jónsson og Jónbjörn Pálsson. (2013).

Did you find the content of this page helpful?