Svartháfur

extrasDictionaryLang extrasDictionarySynonyms
Latin: Centroscyllium fabricii
Danish: Fabricius sorthaj
Faroese: svarthávur
Norwegian: Islandshå
Swedish: större långpiggshaj, svart pigghaj
English: black dogfish
French: aiguillat noir
Russian: Чёрная собачья акула / Tsjórnaja sobátsj'ja akúla

Svartháfur er auðþekktur á löngum og áberandi bakuggagöddum eins og háfurinn en þekkist frá honum á tönnunum sem eru margyddar í svartháfi en einyddar í háfi. Einnig eru þeir ólíkir á litinn (sjá hér á eftir). Annars er svartháfur rennilegur með sívalan bol sem fer afturmjókkandi. Mesta hæð er við fremri bakugga. Hausinn er um þriðjungur til fjórðungur af lengdinni að byrjun sporðs, trjónan er þykk og ávöl og nasir eru nálægt trjónuenda. Kjaftur er í meðallagi bogadreginn. Fremri bakuggi er burstalaga og mjög smár og byrjar rétt aftan við afturenda eyrugga. Aftari bakuggi er mun stærri en fremri bakuggi. Sporður er stór eða tæplega fjórðungur af heildarlengdinni. Kviðuggar eru viðlíka stórir og aftari bakuggi og byrjar rétt framan við fremri jaðar aftari bakugga. Eyruggar eru frekar litlir en raufarugga vantar. Húðtennur eru örsmáar og dreifðar. Húðin á hrygg og ofan á haus er þakin húðþykkildum eða blettum sem gætu verið ljósfæri. Svartháfur á að geta orðið meira en 100 cm langur en er þó sjaldséður lengri en 90 cm.

Litur svartháfs er dökkbrúnn eða svartur að ofan og næstum svartur að neðan og á uggum en oft er hann hvítflekkóttur.

Heimkynni svartháfs eru í austanverðu Atlantshafi frá Íslandsmiðum meðfram landgrunnsköntum suður til Færeyja, Bretlandseyja og áfram allt suður til Senegal í Afríku. Einnig er hann við Gíneu, Síerra Leóne, Namibíu og Suður-Afríku. Í vestanverðu Atlantshafi er hann við Suðaustur- og Suðvestur-Grænland og Norður-Ameríku frá Baffinslandi suður til Virginíu og jafnvel Mexíkóflóa.

Hér við land fannst svartháfur fyrst árið 1903 suður og vestur af Vestmannaeyjum. Síðan hefur hann veiðst á djúpmiðum sunnan og vestan við landið frá Rósagarði norður á grálúðuslóð vestan Víkuráls. Hann er sérstaklega algengur djúpt undan Vesturlandi og djúpt í Berufjarðarál en einnig undan Suðvestur- og Suðurlandi. Aðalútbreiðslusvæði hans í heiminum er sennilega við Ísland.

Lífshættir: Svartháfur er botn- og djúpfiskur sem slæðist stundum upp í miðlög sjávar yfir landgrunnshallanum og nálgast jafnvel yfirborð sjávar á kaldasta og dimmasta tíma ársins. Hann hefur veiðst á 180-1600 m dýpi en er einna algengastur á 600-1200 m dýpi.

Svartháfurinn á unga eins og háfurinn. Í október hafa veiðst hrygnur nálægt goti á svæðinu frá Surtsey vestur með landi og allt norður á grálúðuslóð vestan Víkuráls. Hrygnur með fóstri hafa veiðst á Selvogsbanka í júlí og ein við Grænland í febrúar. Gjótandi hrygnur hafa veiðst í mars á 925 m dýpi í austanverðum Reykjaneshrygg og í lok maí 1992 veiddist gjótandi hrygna, 79 cm löng, á 1330-1415 m dýpi suðvestur af Reykjanesi. Voru afkvæmin 26 að tölu og 15-16 cm löng.

Fæða svartháfa er mjög margbreytileg, m.a. smokkfiskar, bæði botn- og sviflæg krabbadýr, marglyttur og fiskar sem svartháfurinn ræður við, eins og kolmunni og laxsíldar.

Nytjar: Nytsemi svartháfs er engin enda þótt hann veiðist stundum í talsverðu magni sem aukaafli í botnvörpu og á línu.

 

 

Byggt á bókinni, Íslenskir fiskar. ( Mál og menning 2013), Höfundar: Gunnar Jónsson og Jónbjörn Pálsson. (2013).

Did you find the content of this page helpful?