Stuttnefur

extrasDictionaryLang extrasDictionarySynonyms
Latin: Hydrolagus affinis
Danish: småøjet havmus
Faroese: smáoygda havmús
English: deepwater chimaera
French: chimère à petits yeux, chimère de profondeur
Spanish: quimera ojo chico
Portuguese: quimera-da-fundura, ratazana-da-fundura
Russian: Severoatlantítsjeskij gidrolág

Stuttnefur er þykkvaxinn fiskur að framan en þunnvaxnari er aftar dregur og fer smámjókkandi aftur eftir. Hausinn er stuttur og digur og á enni hænganna er brjóskstilkur eins og á geirnyt. Kjaftur er neðan á haus og frekar smáar og með þykkar granir. Í efti skolti eru fjórir flatir tannskaflar og tveir í neðri skolti. Augu eru stór og sporöskjulaga og eru ofarlega á haus. Tálknaop eru rétt framan við rætur eyrugga. Roð er slétt og hreisturlaust. Fremri bakuggi er þrístrendur og viðlíka hár og hann er langur. Hann byrjar andspænis tálknaopi. Fremst í honum er sterklegur gaddur. Aftari bakuggi er langur og lækkar ekki í miðju eins og hjá digurnef. Hann er aðskilinn frá sporðblöðku með djúpri rauf. Sporðblaðkan er lítil og lensulaga og rennur saman við raufarugga án þess að greina sig frá honum. Eyruggar eru mjög stórir og ná næstum aftur að kviðuggum (en ekki aftur á þá). Kviðuggar hænganna mynda sáðrennu. Rákin er greinileg og skiptist í margar greinar á hausnum. Í ágúst 1998 veiddist 138 cm langur stuttnefur á grálúðuslóð vestan Víkuráls. Gæti hann verið sá stærsti sem veiðst hefur.

Litur: Stuttnefurinn er ljósbrúnn eða gulbrúnn á lit að ofan og neðan, trjóna er grá en uggar blýgráir. Stuttnefir geta verið dökkir á lit en ljósir eru þó mun algengari.

Lífshættir: Lítið er vitað um lífshætti stuttnefs. Hann mun vera botn- og djúpfiskur og hefur veiðst á 300-2400 m dýpi. Aðalfæða stuttnefs eru smáfiskar og hryggleysingjar.

 

Byggt á bókinni, Íslenskir fiskar. ( Mál og menning 2013), Höfundar: Gunnar Jónsson og Jónbjörn Pálsson. (2013).

Did you find the content of this page helpful?