Stórkrossi

extrasDictionaryLang extrasDictionarySynonyms
Latin: Asterias rubens
Danish: almendelig søstjerne
Norwegian: vanlig korstroll
German: Gemeiner Seestern, Roter Seestern
Spanish: estrella de mar roja
Portuguese: estrella-do-mar-comum
Russian: Морская звезда / Morskája zvezdá

Stórkrossi er krossfisktegund. Hann er stjörnulaga með fimm nokkuð þykka arma. Oftast er hann 10 til 15 cm í þvermál en getur orðið allt að 40 cm þar sem hann vex á skjólsælum stöðum. Húðin á ungum stórkrossa er yfirleitt fremur stíf en lin á stærri dýrum. Í henni er stoðgrind sem myndar óreglulegt netmynstur á yfirborðinu. Hvítir stuttir þyrnar eru í skúfum sem mynda hlykkjóttar raðir út eftir örmunum, bæði undir dýrinu og ofan á því. Undir örmunum eru fjórar raðir af sogfótum sem stórkrossinn notar bæði til að halda sig við botninn og einnig til að færa sig úr stað. Hann silast hægt eftir botninum og kemst hraðast sex til átta cm á mínútu. Litur stórkrossa er venjulega gulbrúnn eða ljós appelsínugulur en getur einnig verið bláleitur eða fjólublár.

Stórkrossi finnst allt í kringum Ísland. Hann er að finna neðst í fjörunni og neðan fjörunnar allt niður á 200 metra dýpi. Tegundin er algeng á grunnsævi og smáir einstaklingar finnast oft neðst í fjörunni.

Stórkrossi lifir aðallega á klappar-, grjót- og malarbotni en finnst einnig stundum á sand- og leirbotni.

Stórkrossinn er gráðugt rándýr sem lifir á dýrum sem sitja föst eða hreyfa sig mjög hægt eftir botninum. Hann lifir aðallega á samlokum og kuðungum en leggur sér einnig ýmis önnur botndýr til munns. Hann er mikill skaðvaldur í skeljaræktun og getur étið óhemju magn af skeljum á stuttum tíma. Til að opna samloku umlykur hann bráðina og festir mörgum sogfótum í báðar skeljarnar. Síðan reynir hann að spenna þær sundur en samlokan reynir á móti að halda skeljunum lokuðum.

Stórkrossinn er þrautseigur og hefur oftast betur ef hann nær góðu taki. Þegar samlokan opnast hvolfir hann úr sér maganum, inn á milli skeljanna. Magasafinn lamar bráðina, meltir hana og innbyrðir.

Kyn stórkrossans eru aðskilin. Þegar hann æxlast losar hann hrogn og svil út í sjó. Til að frjóvgun verði, verða karl- og kvendýrin að losa kynfrumur nokkurn veginn samtímis. Það gerist þegar blómi svifþörunga er í hámarki á vorin. Það hefur verið áætlað að fullvaxið kvendýr geti hrygnt að minnsta kosti þrem milljónum eggja. Frjóvguðu eggin verða sviflæg og berast með straumum nálægt yfirborði sjávar í tvo til þrjá mánuði. Þann tíma tekur lirfan nokkrum breytingum á þroskaferli sínum og að lokum sest hún á botninn og fær útlit foreldra sinna. Eftir tvö ár á botni getur stórkrossinn orðið um 6 cm í þvermál og verður þá kynþroska. Hann getur lifað sjö til átta ár.

Ef stórkrossi missir einn arminn vex fljótlega nýr í staðinn. Svo magnaður er þessi eiginleiki að jafnvel þótt ekki sé nema einn armur eftir geta hinir fjórir vaxið aftur á tiltölulega skömmum tíma.

 

Did you find the content of this page helpful?