Stóra geirsíli

extrasDictionaryLang extrasDictionarySynonyms
Latin: Paralepis coregonoides
Danish: nordisk lakstobis
Faroese: lakstobis
Norwegian: stor laksetobis
English: Barracudina
German: Lachsspierling
Russian: Паралепис погибший / Paralépis pogíbshij

Stóra geirsíli er langvaxinn fiskur, hausstór og með stór augu sem eru með fituhúð. Trjóna er löng og mjó og nasaop yfir aftari enda efri skolts. Kjaftur er stór og langur og neðri skoltur lengri en sá efri. Tennur eru á báðum skoltum og á gómbeinum en ekki á plógbeini. Tunga er ýmist tennt eða ekki. Bakuggi er aftan við miðju og raufaruggi, sem er um tvöfalt lengri, mun aftar. Andspænis honum aftanverðum er lítill veiðiuggi. Sporður er sýldur. Eyruggar eru í meðallagi stórir en kviðuggar eru frekar litlir. Þeir eru andspænis bakugga. Roð er fíngert og mjúkt. Hreistur er á haus, bol og uggarótum. Rák er greinileg. Stóra geirsíli verður um 50 cm að stærð.

Litur er silfraður, uggar og Iífhimna svört.

Geislar: B: 9-11;- R: 22-24;- hryggjarliðir: 71-74.

Heimkynni stóra geirsílis eru í vestanverðu Miðjarðarhafi (Paralepis coregonoides coregonoides) og Norður-Atlantshafi (Paralepis coregonoides borealis Reinhardt, 1837) heims álfa á milli frá norðvesturströnd Afríku að sunnan norður til Islands- og Grænlandsmiða og frá Vestur-Grænlandi til Suðurríkja Bandaríkjanna.

Stóra geirsíli fannst fyrst við Ísland í nánd við Reykjavík árið 1833. Þá fannst eitt rekið í Skerjafirði árið 1844, annað í þorskmaga í Faxaflóa í júlímánuði árið 1893, eitt í Vestmannaeyjahöfn í febrúar 1913 og eitt rekið á Hornafjarðarfjörur í júlí 1920. Allt þóttu þetta merkisfundir þá. Nú veiðist stóra geirsíli alloft frá Rósagarði undan Suðausturlandi suður og vestur með landi, allt vestur og norður á grálúðuslóð vestan Víkuráls. Það hefur veiðst í Eyjafjarðarál og eitt hefur fundist undan austanverðu Norðurlandi, þ.e. norður af Sléttu. 

Lífshættir: Stóra geirsíli er úthafs- og miðsævisdjúpfiskur á nokkur hundruð metra dýpi niður á rúmlega 1000 m. Fæða er einkum fiskar og krabbadýr en sjálft verður stóra geirsíli öðrum stærri fiskum að bráð, m.a. stóra földungi og túnfiski. Hrygning á sér stað í mars til september í hlýjum sjó.

 

Byggt á bókinni, Íslenskir fiskar. ( Mál og menning 2013), Höfundar: Gunnar Jónsson og Jónbjörn Pálsson. (2013).

Did you find the content of this page helpful?