Stóra brosma

Mynd vantar Stóra brosma
extrasDictionaryLang extrasDictionarySynonyms
Latin: Urophycis tenuis
Danish: Hvid skægbrosme
Swedish: Vit kummel
Plish: Widlak bostonski
English: White hake
German: Gabeldorsch
French: Merluche blanche
Spanish: Locha blanca
Portuguese: Abrótea branca
Russian: Белый налим / Bélyj nalím

Fremri bakuggi er lítill og þríhyrndur og teygist stuttur þráður upp úr honum. Aftari bakuggi er langur og lágur. Raufaruggi er styttri en aftari bakuggi. Sporður er ekki mjög stór. Eyruggar eru í meðallagi og kviðuggar klofnir líkt og hjá litlu brosmu en miklu styttri, ná ekki aftur fyrir eyrugga og er stóra brosma auðþekkt frá litlu brosmu á því. Hreistur er fremur smátt og rák greinileg og sveigist hún aðeins upp á bolnum en niður á framanverðri stirtlu.

Í febrúar árið 1991 veiddist 127 cm löng stóra brosma í Háfadjúpi og er hún sú stærsta sem veiðst hefur á Íslandsmiðum. Sú stærsta sem vitað er um mældist 133 cm.

Litur er rauðgrár til örlítið fjólublár.

Geislar: Bl: 9-10, B2: 53-59,- R: 44-51,- hryggjarliðir: 45-50.

Heimkynni stóru brosmu eru í norðvestanverðu Atlantshafi við austurströnd Kanada og Bandaríkjanna frá Labrador og Nýfundnalandi (Stórabanka) suður til Norður-Karólínu. Flækingar fara allt til Flórída. Hefur einu sinni veiðst undan Suðvestur-Grænlandi. Til Íslandsmiða flækjast stundum stórir og gamlir fiskar. Stóru brosmu varð fyrst vart hér á 110 m dýpi í Jökuldjúpi í maí 1908. Fram til ársins 1920 veiddust alls fjórar stóru brosmur við Ísland og síðan hafa allmargar bæst við. Fyrst var talið að um nýja tegund væri að ræða og fékk hún vísindanafnið Phycis borealis en nú er löngu ljóst að hér var ekki um nýja tegund að ræða nema fyrir Íslandsmið. Allt til ársins 1980 hafði stóra brosma aðeins fundist á svæðinu frá Breiðafirði (út af Höskuldsey, júní 1951) og austur í Lónsdjúp en haustið 1980 veiddist ein á Vestfjarðamiðum. Þá gæti ein hafa veiðst á 400-440 m dýpi í Rósagarðinum í mars árið 1985 og ef það er rétt mun það vera austasti fundur tegundarinnar til þessa.

Lífshættir: Stóra brosma er botnfiskur sem heldur sig á leirbotni eða mjúkum botni á landgrunninu eða hlíðum þess. Hún hefur veiðst niður á 980 m dýpi en heldur sig venjulega grynnra eða innan 200 m dýptarlínunnar. Þær stóru brosmur sem hér hafa veiðst eru allar mjög stórir fiskar, 80-127 cm að lengd, og hrygnur eru oft með ígerð í hrognasekk.

Fæða er ýmiss konar fiskar, smákrabbadýr og smokkfiskar.

 

Byggt á bókinni, Íslenskir fiskar. ( Mál og menning 2013), Höfundar: Gunnar Jónsson og Jónbjörn Pálsson. (2013).

Did you find the content of this page helpful?