Steinbítur

extrasDictionarySynonymsIcelandic:
sladdi
extrasDictionaryLang extrasDictionarySynonyms
Latin: Anarhichas lupus
Danish: havkat, stribet havkat, søulv
Faroese: steinbítur
Norwegian: gråsteinbit, havkatt, steinbit
Swedish: havkatt
English: catfish, wolffish
German: Gestreifter Katfisch, Seewolf
French: loup de l'Atlantique, loup de mer, loup marin
Spanish: perro del norte
Portuguese: peixe-lobo-riscado
Russian: Зубатка полосатая / Zubátka polosátaja, Зубатка / Zubátka

Steinbítur er langvaxinn og hausstór fiskur með mjög sterkar tennur og kjálka. Fremst í kjafti eru fjórar stórar og bognar vígtennur í hvorum skolti en aftan við þær eru í neðri skolti breiðir og snubbóttir jaxlar og einnig á plógbeini og gómbeinum. Augu eru smá. Bakuggi er einn langur og nær hann eftir endilöngu baki frá haus og aftur að sporðblöðku. Raufaruggi er einnig einn og um helmingi styttri en bakuggi. Báðir eru þeir greinilega aðskildir frá sporðblöðku. Eyruggar eru mjög stórir en kviðugga vantar. Hreistur er mjög smátt en roðið er þykkt. Rák er oftast greinanleg. Steinbítur getur orðið a.m.k. 125 cm langur en er oftast 50-80 cm. Stærsti steinbítur sem mældur hefur verið af Íslandsmiðum var 124,5 cm og veiddist við Vestmannaeyjar í mars árið 1996. Annar svipaður að stærð veiddist við Suðausturland árið 2000.

Litur: Steinbítur er oftast blágrár á lit en stundum grænleitur, með 10—12 dekkri þverrákum á hvorri hlið. Kviður er dálítið Ijósari.

Geislar: B: 69-79,- R: 42-48,- hryggjarliðir: 74-76.

Heimkynni steinbíts eru í Barentshafi og Norður-Atlantshafi frá Svalbarða, Hvítahafi og Múrmanskströndum, meðfram Noregi og inn í dönsku sundin. Þá er hann í Norðursjó og umhverfis Bretlandseyjar og allt suður í Biskajaflóa. Einnig við Færeyjar, Ísland og Austur-Grænland. Hann er við Vestur- Grænland og Norður-Ameríku frá Labrador í Kanada og suður til Nýfundnalandsmiða og Bandaríkjanna. Flækinga verður vart allt til New Jersey.

Við Ísland er steinbítur allt í kringum landið en hann er algengastur við Vestfirði og mikið er um hann undan Austurlandi en einnig er talsvert um hann í sunnanverðum Faxaflóa á vorin og sumrin og við Suðausturland á sumrin.

Lífshættir: Steinbíturinn er botnfiskur og kann best víð sig á leir- og sandbotni. Hann lifir á 10-300 (500) m dýpi en er tíðastur á 40-180 m dýpi. Talsverðar göngur eru á steinbít hér við land og hafa merkingar leitt í Ijós að hann gengur m.a. frá Vestfjarðamiðum til Austfjarðamiða og öfugt. Á árunum 1966 til 1975 voru merktir 12.740 steinbítar á Íslandsmiðum og meðal athyglisverðra endurheimtna má nefna að steinbítur merktur við Hvalbak út af Austfjörðum í ágúst árið 1969 veiddist aftur í maí 1970 í 500 sjómílna fjarlægð á Barðagrunni og annar merktur við Skrúð í ágúst 1969 veiddist í desember 1970 á Halanum og er fjarlægðin 360 sjómílur norður fyrir land en 480 sjómílur suður fyrir land. Steinbítur merktur út af Rit í apríl 1970 veiddist rúmu ári síðar út af Djúpavogi í 360 sjómílna fjarlægð frá merkingarstað. Steinbítur sem merktur var í desember árið 1972 á Látragrunni veiddist sjö mánuðum síðar í Meðallandsbug í 300 sjómílna fjarlægð. Annar sem merktur var í desember árið 1973 á Látragrunni veiddist þremur mánuðum síðar við Reykjanes, 110 sjómílum frá merkingarstað. Ekkert bendir til þess að steinbíturinn við Ísland haldi á fjarlæg mið til annarra landa.

Fæða er fyrst og fremst alls konar botndýr, einkum skeldýr eins og aða, kúfiskur, sniglar (hafkóngur, beitukóngur), krabbadýr (kuðungakrabbi, trjónukrabbi), ígulker og slöngustjörnur en einnig étur steinbíturinn talsvert af fiski, m.a. loðnu.

Hrygning steinbíts hér við land fer fram að hausti og snemma vetrar, þ.e. síðari hluta september og fram í nóvember. Aðalhrygningarstöðvarnar eru á 160-200 m dýpi undan Vesturlandi (á Látragrunni) og Vestfjörðum. Einnig mun eiga sér stað einhver hrygning í Lónsdjúpi undan Suðausturlandi og e.t.v. sums staðar undan Austfjörðum. Þá hafa veiðst hrygnur alveg komnar að hrygningu og nýhrygndar undan vestanverðu Norðurlandi og austan Langaness. Steinbítur verður almennt kynþroska hér við Iand um 60 cm langur og 9-12 ára gamall. Dæmi eru um að hann verði kynþroska minni en veiðst hefur kynþroska steinbítur sem var aðeins 25 cm langur. Egg eru stór, 5- 6 mm í þvermál, og eftir frjóvgun, þar sem hængurinn sprautar sæðinu inn í hrygnuna, er þeim hrygnt í kökk sem festur er við botninn. Eggjafjöldi frá hverri hrygnu er frá 300 til 15.000. Athuganir í fiskabúri í Náttúrugripasafni Vestmannaeyja, þar sem hrygna hrygndi árið 1974, sýndu að hún hringaði sig utan um eggin og gætti þeirra. Í byrjun desember 1991 hrygndi önnur steinbítshrygna í fiskabúri í Vestmannaeyjum eftir fjörugan „ástarleik" við hæng og hængurinn tók síðan að sér gæslu eggjanna. Athuganir úr Barentshafi og við Kanada benda einnig til þess að það séu hængarnir sem gæti eggjanna. Um hrygningartímann missir steinbíturinn tennurnar og er tannlaus um tíma og tekur ekki til sín neina fæðu. Síðan vaxa nýjar tennur. Þá er steinbíturinn orðinn rýr og þurfandi fyrir kjarnmikla fæðu. Hann heldur þá að hrygningu lokinni upp á grunnslóð í fæðuleit.

Vöxtur steinbíts er frekar hægur en hann getur orðið meira en 20 ára gamall.

Óvinir steinbíts eru ýmsir. Auk mannsins éta hann ýmsir fiskar eins og stórlúða, hákarl og þorskur. Hlýrinn sækir í hrogn steinbíts og ætla má að fleiri sjávardýr geri það. Selir og smáhveli áreita hann og einnig sækir skarfurinn í hann. Ymis sníkjudýr gera sig heimakomin á honum. Má oft finna smáar blóðsugur á roði hans.

Nytjar: Steinbítur er víða veiddur, einkum í botnvörpu, á línu og í dragnót. Íslandsmið eru og hafa lengi verið eitt helsta veiðisvæðið.

Aðalveiðiþjóðir eru Íslendingar, Norðmenn og Rússar. Auk Íslandsmiða eru Barentshaf og svæðið vestan Noregs aðalveiðisvæðin í Norðaustur-Atlantshafi.

 

Byggt á bókinni, Íslenskir fiskar. ( Mál og menning 2013), Höfundar: Gunnar Jónsson og Jónbjörn Pálsson. (2013).

Did you find the content of this page helpful?