spælingur (icelandic)

Spærlingur

extrasDictionarySynonymsIcelandic:
spælingur
extrasDictionaryLang extrasDictionarySynonyms
Latin: Trisopterus esmarki
Danish: sperling, spærling
Faroese: hvítingsbródir
Norwegian: augnepål, øyepal, øyepale
Swedish: vitlinglyra
English: Norway pout
German: Stintdorsch
French: tacaud norvégien
Spanish: faneca noruega
Portuguese: faneca-noruega
Russian: Тресочка Эсмарка / Tresótsjka Ésmarka, Песчанка / Pestsjánka

Spærlingur er langvaxinn, grannvaxinn og þunnvaxinn, straumlínulaga fiskur sem minnir dálítið á smáýsu í útliti. Haus er í meðallagi stór, kjaftur allstór og teygist neðri skoltur lengra fram en sá efri.

Tennur eru smáar. Á neðri skolti er lítill hökuþráður. Augu eru stór, stærri en trjónulengdin. Bolur er stuttur, styttri en hausinn, en stirtla er löng og afturmjó. Bakuggar eru þrír vel aðskildir og sá í miðju lengstur. Raufaruggar eru tveir, vel aðskildir og sá fremri lengri. Sporðblaðka er í meðallagi stór, einnig eyruggar en kviðuggar eru frekar litlir. Þeir eru framan við eyrugga. Hreistur er smátt og þunnt og fellur auðveldlega af. Rák er greinileg og liggur í sveig ofan við eyrugga.

Spærlingur hefur mælst lengstur 30 cm hér við land (í Breiðamerkurdjúpi í maí 2010) en í Barentshafi 35 cm. Oftast er hann 16-19 cm.

Litur er þanggrænn að ofan með gullnum blæ á nýveiddum fiskum, silfurlitaður á hliðum og hvítur á kvið. Rák er dökk og við eyruggarætur er smár svartur blettur.

Geislar: Bl: 14-16,- B2: 22-26,- B3: 22- 27; R1: 26-31; R2: 24-30,- hryggjarliðir: 51-57.

Heimkynni spærlings eru í norðaustanverðu Atlantshafi við Ísland, Færeyjar og suður til Skotlands og Írlands. Hann er í Norðursjó, Skagerak, Kattegat og dönsku sundunum, við Noreg og allt norður í Barentshaf. Þá hefur spærlings orðið vart á Möstinggrunni við Austur-Grænland og gæti þar verið um að ræða flækinga frá Íslandi.

Við Ísland er spærlingurinn einkum í hlýja sjónum frá Suðausturlandi og undan Suðurlandi og vestur fyrir land og norður allt til Strandagrunns. Einnig hefur orðið vart við einstaka fiska undan Norðurlandi og árið 1978 veiddust allmargir spærlingar á fyrsta aldursári í rækjuvörpu í Öxarfirði. Þá bar talsvert á spærlingi í Eyjafirði síðla sumars árið 2003.

Lífshættir: Spærlingur lifir á 40-400 m dýpi en er algengastur á 100-200 m dýpi. Hann er botnfiskur en þvælist einnig upp um sjó í fæðuleit.

Fæða er alls konar smákrabbadýr eins og Ijósáta en einnig rækja og smáfiskar.

Hér við land hrygnir spærlingurinn við suður- og suðvesturströndína, einkum í Háfadjúpi og á Selvogsbanka frá því í síðari hluta mars og fram í maí. Egg og seiði eru sviflæg. Spærlingurinn fer að hrygna tveggja til þriggja ára og getur orðið 4-5 ára gamall.

Nytjar: Danir og Norðmenn hófu spærlingsveiðar í Norðursjó og Skagerak í stórum stíl til bræðslu árið 1961 og hafa þeir verið aðalveiðiþjóðirnar síðan. Spærlingsveiðar hófust ekki hér fyrr en árið 1969. Mestur varð spærlingsaflinn á Íslandsmiðum árið 1974, tæp 34.600 tonn. Engar spærlingsveiðar hafa verið stundaðar hér um langt skeið, m.a. vegna þess að mikið af ungfiski annarra tegunda, svo sem ýsu, er drepið við þessar veiðar.

 

Byggt á bókinni, Íslenskir fiskar. ( Mál og menning 2013), Höfundar: Gunnar Jónsson og Jónbjörn Pálsson. (2013).

 

 

Did you find the content of this page helpful?