Slóans gelgja

extrasDictionaryLang extrasDictionarySynonyms
Latin: Chauliodus sloani
Danish: sabeltandfisk
Faroese: Sloans ormsfiskur
Norwegian: huggormfisk
Swedish: huggormsfisk
English: needle tooth, Sloan's viperfish, viperfish
French: chauliode de Sloane
Russian: Хаулиод обыкновенный / Khauliód obyknovénnyj

Slóans gelgja er langvaxinn og þunnvaxinn fiskur. Hún er hæst á haus, rétt aftan augna, en smámjókkar þaðan og aftur eftir. Haus er allstór og kjaftur er mjög stór og nær langt aftur fyrir augu. Á framskoltsbeini eru fjórar langar og oddhvassar vígtennur hvorum megin og á neðri skolti eru oddhvassar dreifðar tennur og þær fremstu mjög langar (ná út fyrir og upp fyrir efri skolt þegar kjaftur er lokaður). Augu eru í meðallagi stór. Bakuggi er mjög framarlega, yfir aftari hluta eyrugga og stendur á eins konar fæti. Hann er stuttur og hár og fremsti geisli hans er mjög langur. Veiðiuggi er mjög aftarlega, næstum við sporð og andspænis honum er lítill raufaruggi aðeins lengri en veiðiugginn. Framan við raufarugga er einnig smár veiðiuggi. Spyrðustæði er grannt en sporðblaðka stór og sýld. Eyruggar eru í meðallagi stórir en kviðuggar stórir og rétt framan við miðju. Þá er hreistur stórt og mjög þunnt. Tvær raðir Ijósfæra eru hvorum megin á kviði frá haus og aftur úr. Slóans gelgja verður um 35 cm á lengd.

Litur er dökkgrænn að ofan, hliðar eru silfurgljáandi en kviður er grásvartur.

Geislar: B: 5-8,- R: 10-13.

Heimkynni eru víða í Atlants-, Indlands- og Kyrrahafi. Einnig í vestanverðu Miðjarðarhafi. Í norðaustanverðu Atlantshafi er slóans gelgja alveg norður til Íslands- og Grænlandsmiða.

Hér varð slóans gelgju fyrst vart í febrúar árið 1916 en þá rak eina við Hornafjarðarós. Síðan hefur hún veiðst alloft, einkum undan suðaustur-, suður- og suðvesturströndinni. Undanfarin ár hefur hún veiðst næstum árlega, ein eða fleiri á djúpslóð frá Seyðisfjarðardjúpi suður og vestur fyrir land og alveg til miðanna við Kolbeinsey en þar veiddist ein í september árið 1988. Hún virðist vera mjög algeng djúpt undan Suðvesturlandi og er ein algengasta tegund miðsævisdjúpfiska þar.

Lífshættir: Slóans gelgja er uppsjávar- og miðsævisdjúpfiskur sem veiðst hefur frá yfirborði og niður á 2800 metra dýpi.

Fæða er ýmsir miðsævisfiskar og smákrabbadýr.

Hrygning virðist eiga sér stað allt árið um kring með hámarki síðla vetrar og snemma vors.

 

Byggt á bókinni, Íslenskir fiskar. ( Mál og menning 2013), Höfundar: Gunnar Jónsson og Jónbjörn Pálsson. (2013).

 

 

Did you find the content of this page helpful?