Slétthyrna

extrasDictionaryLang extrasDictionarySynonyms
Latin: Chaenophryne longiceps
Danish: Glathovedet mareangler
English: Can-opener smoothdream

Slétthyrna er lítill og hausstór fiskur og er haus bogadreginn að ofan. Enginn gaddur er á kambi. Kjaftur er stór og láréttur og nær aftur fyrir augu. Á skoltum eru allsterklegar tennur og plógbein er tennt beggja vegna. „Veiðistöng" á trjónu er frekar stutt. Stærsta slétthyrnan við Ísland mældist 24 cm en undan Hvarfi við Grænland veiddist ein 27 cm í júní 2003.

Litur slétthyrnu er svartur.

Geislar: B: 6-8,- R: 4-6,- E: 16-22, S: 9, hryggjarliðir: 21.

Heimkynni slétthyrnu eru í Atlantshafi, Indlandshafi og Kyrrahafi. Í norðaustanverðu Atlantshafi hefur hún m.a. veiðst undan Gíbraltar og Írlandi og á Íslandsmiðum. Einnig við suðvestanvert Grænland og undan Nýfundnalandi.

Hér veiddist slétthyrna fyrst í leiðangri Vestur-Þjóðverja á rannsóknaskipinu Walther Herwig djúpt vestur af landinu árið 1973. Þá veiddist önnur í október árið 1985 á rækjumiðunum við miðlínu milli Íslands og Grænlands. Síðan hafa margar slétthyrnur veiðst á grálúðuslóðinni vestur af Víkurál og djúpt suð vestur af Reykjanesi en einnig út af Berufjarðarál við Suðausturland og ein út af Húnaflóa.

Lífshættir: Lítið er vitað um lífshætti slétthyrnu. Hún er miðsævis-, botn- og djúpfiskur og hér á Íslandsmiðum hefur hún veiðst á 330- 1335 m dýpi og ýmist í flot- eða botnvörpu. Í maga slétthyrnu sem veiddist hér árið 1985 fundust tvær loðnur.

 

Byggt á bókinni, Íslenskir fiskar. ( Mál og menning 2013), Höfundar: Gunnar Jónsson og Jónbjörn Pálsson. (2013).

Did you find the content of this page helpful?