Skrápflúra

extrasDictionaryLang extrasDictionarySynonyms
Latin: Hippoglossoides platessoides
Danish: håising
Faroese: hvassasprek
Norwegian: gapeflyndre, langkjeftflyndre, storkjeft
Swedish: lerskädda, storgab
English: long rough dab, rough dab, canadian plaice, american plaice
German: Doggerscharbe, Rauhe Scharbe, Rauhe Scholle
French: balai, balai de l'Atlantique, faux flétan, flétan nain, plie canadienne
Spanish: platija americana, platija canadiense
Portuguese: solha-americana, solha-flanda
Russian: Камбала-ёрш / Kámbala-jorsh

Skrápflúra er hávaxinn og þunnvaxinn fiskur. Haus er miðlungsstór, kjaftur frekar stór og ná skoltar aftur á móts við mitt hægra auga. Tennur eru hvassar og bognar, jafnsmáar og í einni röð á báðum skoltum. Augu eru stór, stærri en trjónulengdin og Iiggur vinstra auga aftar en það hægra. Bak- og raufaruggi eru langir og byrjar bakuggi yfir miðju vinstra auga. Sporður er bogadreginn eða smáyddur í miðju. Hreistur er stórgert og hrjúft og rák er greinileg. Hún er nokkuð bein nema með smábug yfir eyruggum. Stærsta skrápflúra sem veiðst hefur á Íslandsmiðum mældist 65 cm og veiddist hún á Gerpisgrunni í mars árið 1991.

Litur: Skrápflúra er rauðgrá á hægri hlið, stundum dökkgrá en vinstri hlið er hvít.

Geislar: B: 76-101; R: 60-79,- hryggjarliðir: 45.

Heimkynni skrápflúru eru í Norður- Atlantshafi, Norður-Íshafi og Barentshafi frá Svalbarða og meðfram ströndum Noregs inn í vestanvert Eystrasalt, í Norðursjó, suður í Ermarsund og umhverfis Bretlandseyjar. Hún er við Færeyjar og Ísland. Við Grænland og Norður-Ameríku er undirtegundin Hippoglossoides platessoides platessoides. Hún hefur mælst lengst 82 cm.

Skrápflúra er mjög algeng allt í kringum Ísland.

Lífshættir: Skrápflúra er botnfiskur sem heldur sig mest á leir- og leðjubotni á 10- 400 m dýpi og dýpra en hún hefur veiðst allt niður á 1200 m dýpi.

Fæða er mest loðna og alls konar botndýr, svo sem burstaormar, slöngustjörnur, samlokuskeljar, sniglar, kuðungakrabbar og fleiri krabbadýr en einnig sandsíli og fleiri smáfiskar.

Hrygning fer fram allt í kringum landið í mars til júní. Eggjafjöldi er 50-300 þúsund og þau eru 2-3 mm í þvermál, sviflæg og klekjast á um tveimur vikum. Seiði eru 4- 6 mm við klak og lifa í svifinu þar til þau eru 2-4 cm löng en hverfa þá til botns. Vöxtur er hægur og vaxa hrygnur hraðar en hængar, verða kynþroska seinna og geta náð hærri aldri.

Nytjar: Skrápflúra veiðist oft með öðrum fiskum í botnvörpu og var til skamms tíma lítils metin og henni fleygt.

Árið 1996 veiddu Íslendingar 6.435 tonn af skrápflúru á Íslandsmiðum sem er mesti afli þar til þessa.

 

Byggt á bókinni, Íslenskir fiskar. ( Mál og menning 2013), Höfundar: Gunnar Jónsson og Jónbjörn Pálsson. (2013).

 

Did you find the content of this page helpful?