Skötuselur

extrasDictionaryLang extrasDictionarySynonyms
Latin: Lophius piscatorius
Danish: bredflab, havtaske
Faroese: havtaska
Norwegian: breiflabb, havtaske, marulk, sjødævel, ulke
English: angler, anglerfish, bullmouth, devilfish, frogfish, goosefish, monk, monkfish
German: Angler, Seeteufel
French: baudroie commune, crapaud, grenouille, lotte
Spanish: rape
Portuguese: tamboril
Russian: Морской чёрт / Morskój tsjort

Skötuselur er mjög hausstór og kjaftvíður, frambreiður, afturmjókkandi og flatvaxinn. Hann er yfirmynntur (neðri skoltur nær lengra fram), með oddhvassar og þéttstæðar tennur sem leggjast aftur. Eru þær í tveimur röðum á skoltum, í einni röð á gómbeinum og nokkrum röðum á plógbeini. Augu eru smá og tálknaop lítil og opnast aftan og ofan við eyrugga. Bakuggar eru tveir, sá fremri með sex löngum og linum gisstæðum geislum. Fremsti geislinn er með húðblöðku á endanum, hann getur hreyfst í allar áttir og er eins konar veiðistöng sem fiskurinn notar til þess að lokka að sér bráð. Reyndar eru tveir fremstu geislarnir einn og hinn sami og leika á nokkurs konar ás inni í hausnum. Ef fremsti geislinn ýtist fram eða út togast annar geislinn inn og öfugt.

Aftari bakuggi og raufaruggi eru svipaðir að stærð og andspænis hvor öðrum. Sporður er vel þroskaður og örlítið bogadreginn fyrir endann. Eyruggar eru mjög sérstæðir og vel þroskaðir. Minna þeir á selshreifa og af því og flötu vaxtarlagi sínu dregur skötuselurinn nafn sitt. Með hjálp eyrugganna getur skötuselurinn staulast um botninn. Kviðuggar, sem eru góðan spöl framan við eyrugga, eru allvel þroskaðir. Roð er hreisturlaust og mjúkt viðkomu en rákin er lítt áberandi. Meðfram útjöðrum skötuselsins eru flipar sem minna á kögur.

Skötuselur getur náð um 200 cm Iengd en sá stærsti á Íslandsmiðum veiddist í net á Síðugrunni árið 2000 og mældist 155 cm. Þá hafa tveir skötuselir mælst 145 cm hvor, sá fyrri á 300 m dýpi í Skeiðarárdjúpi í apríl árið 1999 en sá síðari í Háfadjúpi í október 2003.

Í breskri fiskabók frá síðari hluta 19. aldar segir að skötuselur hafi verið staðinn að því að éta eða reyna að éta fugla eins og dílaskarf, silfurmáf, himbrima, álku, rauðhöfðaönd og langvíu og stundum með slæmum afleiðingum fyrir skötuselinn því hann réð ekki alltaf við bráð sina. Þá fundust einnig grjóthnullungar í honum og einu sinni baujukorkur sem hélt áfram hlutverki sínu í görn fisksins svo hann svamlaði um í yfirborðinu. Í sömu bók segir frá skötusel sem lenti uppi i fjöru og lá þar hálfdauður þegar refur i ætisleit kom aðvífandi og varð það á að stinga trýni sínu og haus inn á milli skolta skötuselsins sem hafði rænu á að skella skoltum saman svo skolli sat fastur i gildrunni þar til einhver „fjörulalli" frelsaði hann úr prísundinni.

Lengi vel þótti skötuselur ekki vera mannamatur og i áðurnefndri breskri fiskabók segir að skötusel hafi verið hent fyrir borð þegar hann veiddist en stundum verið ristur á kvið og það sem fannst i görn (t.d. síld) hirt ef það var ekki orðið ofmelt og selt grunlausum neytendum.

Litur er breytilegur eftir botnlagi en oftast er hann brún- eða svartleitur að ofan en Ijós að neðan. Lífhimna er fölleit.

Geislar: B1: 3 + 3,-B2: 11-13, R: 9-11; hryggjarliðir: 30-32.

Heimkynni skötusels eru í austanverðu Atlantshafi, frá Íslandi og Norður-Noregi og jafnvel allt til Múrmansk. Hann er suður með Noregi og inn í dönsku sundin. Einnig er hann við Færeyjar og Bretlandseyjar, í Norðursjó og allt suður í Miðjarðarhaf. Þá varð hans vart undan Suðvestur- og Suðaustur-Grænlandi árin 2007 og 2008. Skötuselur er við Asóreyjar, meðfram strönd Afríku suður í Gíneuflóa og jafnvel við Suður-Afríku.

Í Miðjarðarhafi og norðaustanverðu Atlantshafi, frá Senegal í Afríku og norður til Bretlandseyja, er önnur tegund, litli skötuselur, Lophius budegassa og í norðvestanverðu Atlantshafi við strendur Ameríku er kanaskötuselur eða skötuselsbróðir, Lophius americanus.

Við Ísland hefur skötuselur einkum haldið sig í hlýja sjónum frá Suðausturlandi vestur með til suðvestur- og vesturmiða en í september 1996 veiddist skötuselur í dragnót á Skjálfanda. Árið 1998 fór að bera mikið á smáum skötusel, 15—30 cm löngum, í rækjuvörpum í Ísafjarðardjúpi. Síðan hefur slæðingur af skötusel veiðst undan Vestfjörðum. Í apríl árið 2001 veiddist 55 cm Iangur skötuselur í grásleppunet á 60 m dýpi undan Hraunsvita á Skaga og í nóvember sama ár veiddust tveir inni í Ólafsfirði (66°06'N, 18°36,5'V).

Lífshættir: Skötuselur hefur verið talinn botnfiskur sem lifir á 20-1800 m dýpi. Hann liggur gjarnan á botninum og lúrir þar eftir bráð. Fiskar hann þá með „veiðistönginni" en einnig syndir hann um í Ieit að bráð. Þá hefur hann verið staðinn að því oftar en einu sinni að flækjast um við yfirborð og yfir miklu dýpi. Skötuselur hefur m.a. veiðst nálægt yfirborði yfir 2600 m botndýpi í hafinu vestan Noregs. Eru það einkum fiskar minni en 100 cm sem eru að þvælast við yfirborð. Enski fiskifræðingurinn F. Day getur þess í riti sínu The Fishes of Great Britain and Ireland (1880-1884) að skötuselur komi upp í yfirborð sjávar og éti þar allt sem að kjafti kemur. Einnig er þess getíð að skötuselur komi upp í yfirborðið á sumrin og haustin og liggi þar í sólbaði. Skötuselur hefur veiðst á flotlínu á 50-150 m dýpi við túnfiskveiðar Japana djúpt suður og suðvestur af landinu á yfir 1000 m botndýpi. Í júlí árið 1996 veiddist 55 cm hængur við yfirborð rétt utan 200 sjómílna markanna austur af landinu. Skötuselur hefur ekki verið talinn mikill göngufiskur en þó hafa endurheimst hér fiskar sem merktir höfðu verið við Hjaltland og Færeyjar.

Fæða er alls konar fisktegundir, eins og þorskur, ýsa, langa, keila, spærlingur, kolmunni, ýmsar tegundir flatfiska, sandsíli og smáháfur en humar og fleiri krabbadýr, smokkfiskur og fuglar (svartfugl) hafa einnig fundist í görn hans.

Hrygning fer fram í hlýja sjónum suður og suðaustur af landinu, langt frá landi og á miklu dýpi. Aðalhrygningarsvæði skötusels í norðaustanverðu Atlantshafi er suðvestur og suður af Færeyjum, vestan og sunnan Bretlandseyja og suður í Biskajaflóa. Hann hrygnir um einni milljón eggja í apríl til júlí á meira en 400 m dýpi og eru eggin lögð 16-10 m langan og 15—45 cm breiðan, slímugan borða, fjólubláan á lit. Flýtur hann í sjónum þar til eggin klekjast. Eggin eru að meðaltali 2-3 mm í þvermál. Lirfur eru um 4,5 mm við klak. Seiði eru mjög ólík foreldrum sínum í útliti fyrst í stað. Þau eru m.a. með mjög langa uggageisla og uggar eru tiltölulega stærri en á fullorðnum fiskum. Seiðin eru sviflæg en þegar þau eru 5-9 cm Iöng hverfa þau til botnsins og eru þá að mestu leyti búin að fá á sig mynd foreldra sinna.

Í júní 2003 veiddist 5 cm seiði á 0-350 m dýpi rétt utan 200 sjómílna fiskveiðilögsögunnar á Reykjaneshrygg (60°25'N, 28°41'V) og annað, 7,5 cm, á 350-700 m dýpi litlu austar (59°40'N, 26°12'V).

Í byrjun júlí 2004 veiddist skötuselshrygna á 64 m dýpi rétt út af Sandgerði. Úr henni var rakinn sjö m langur hrognaborði. Hann var appelsínugulur á lit.

Skötuselshrygna, sem var í búri í Björgvin í Noregi, hrygndi þar í maí 1978 sex metra löngum borða og 40 cm breiðum, fjólubláum á lit. Á þessum borða voru eggin umlukin slímhjúp. Þar sem hrygnan var ein og hæng- laus voru eggin ekki frjóvguð og borðinn eyddist á fáum dögum.

Talið er að hængar verði kynþroska um 40 cm langir og fjögurra ára en hrygnur um 70 cm og sex ára.

Reynt hefur verið að aldursákvarða skötusel eftir árhringjum í kvörnum eða með því að taka þversneið af fremsta bakuggageisla við rætur hans, en aldursgreining skötusels er flókið mál að mati þeirra sem við hafa strítt. Hann virðist geta orðið um 20 ára gamall eða eldri en fiskar eldri en 14 ára eru sjaldséðir.

Nytjar: Nytsemi skötusels er töluverð. Hann er mest veiddur í botnvörpu, á línu og í net og eru það einkum Frakkar og Spánverjar sem stunda þær veiðar. Hér veiddist hann sem aukaafli við suðaustur-, suður- og suðvestur- ströndina, einkum í botn- og humarvörpu. Sumarið 1999 hófust veiðar á skötusel í sérstaka fótreipisvörpu og árið 2000 var farið að veiða hann í stórriðin net á miklu dýpi undan Suðurlandi. Heildarafli á Íslandsmiðum það árið varð um 1500 tonn og hafði ekki orðið meiri áður. Þar af veiddust um 760 tonn í net. Nú eru stundaðar skötuselsveiðar á svæðinu frá Suðausturlandi vestur í Faxaflóa og Breiðafjörð. Árið 2003 varð aflinn tæp 1700 tonn. Árið 2009 varð skötuselsaflinn um 4000 tonn.

Grein um aukna útbreiðslu skötusels við Ísland. Hér

 

Byggt á bókinni, Íslenskir fiskar. ( Mál og menning 2013), Höfundar: Gunnar Jónsson og Jónbjörn Pálsson. (2013).

Did you find the content of this page helpful?