Síldarkóngur

extrasDictionaryLang extrasDictionarySynonyms
Latin: Regalecus glesne
Danish: Sildekonge
Faroese: Sildakongur, Sildasterrill
Norwegian: Sildekonge
Swedish: Sillkung
English: King of the herrings, Ribbonfish
German: Rimenfisch
French: Regalec, Roi des harengs
Spanish: Rey de los arengques, Pez remo
Portuguese: Relangueiro, Rei-dos-arenques

Síldakóngur er langvaxinn og þunnvaxinn fiskur. Hausinn er lítill og trjónan stutt og fiskurinn er kjaftlítill og tannlaus. Augun eru í meðallagi stór. Hausbein eru mjög lin. Bakuggi nær frá enni og aftur á stirtluenda. Fremstu 10-15 geislar hans eru langir og framsveigðir og á enda þeirra er húðblaðka. Líkist þetta kórónu og er ekki ólíklegt að sæfarar fyrri alda hafi þarna þóst sjá sæskrímsli eða jafnvel sjálfan sjávarguðinn í allri sinni dýrð. Að öðru leyti er bakugginn jafnlágur en þó lægstur aftast. Raufarugga vantar, svo og sporðblöðku. Eyruggar eru litlir en kviðuggar hvor um sig eru aðeins einn langur geisli sem nær aftur undir rauf og endar þar í húðblöðku. Roðið er smá hnökrótt, einkum á kviði og eftir hvorri hlið, ofan rákar. Frá haus og aftur úr eru fjórar raðir af stærri hnökrum. Rák er greinileg. Lengsti síldakóngur sem vitað er um mældist 11 m og er hann þá lengsti beinfiskur sem þekkist en mesta skráða þyngd er 232 kg.

Litur: Síldakóngur er silfurgljáandi á lit með stuttum óreglulegum þverröndum eða blettum. Uggar eru rauðir.

Heimkynni síldakóngs eru í öllum heimshöfunum. Hann hefur fundist við Ísland, Færeyjar, Noreg og Skotland. Einnig í Norðursjó og Miðjarðarhafi.

Hér fannst 380 cm síldakóngur rekinn hjá Gamla-Hrauni við Eyrarbakka í Árnessýslu í september árið 1906 og annar rekinn, sennilega í febrúar 1919, á Traðarfjöru í Staðarsveit á Snæfellsnesi. Þann þriðja veiddi þýskur togari á um 200 m dýpi í Grindavíkurdjúpi í byrjun nóvember árið 1932. Fiskurinn mældist um 200 cm. Þá er talið að einn 240 cm langur hafi fundist á fjöru í landi Lambastaða í Álftaneshreppi á Mýrum í júní 1991.

Lífshættir: Síldakóngur mun vera miðsævis- eða djúphafs- og úthafsfiskur, oftast á 300- 600 m dýpi en hann hefur fundist niður á 1000 m dýpi. Hann álpast stundum upp í efri lög sjávar og allt upp að yfirborði og virðist vera þar frekar bjargarlaus. Um fæðu og hrygningu er lítið vitað. Í maga hans hafa fundist Ijósáta, fiskar og smokkfiskur og sjálfur getur hann orðið túnfiskum að bráð sem smáfiskur. Egg eru stór, 2,5 mm í þvermál, og hafa lirfur fundist í Miðjarðarhafi að vetri til. Flesta þá síldakónga sem hafa fundist rak á fjörur eða þeir voru nær dauða en lífi og meira eða minna skemmdir þegar þeir náðust á sjó.

Nytjar: Nytsemi er engin og síldakóngur hefur varla verið talinn ætur. Það munu helst vera hundar og fiskifræðingar sem reynt hafa að éta síldakóng og fúlsa hundar fyrr við honum en fræðingar.

 

Byggt á bókinni, Íslenskir fiskar. ( Mál og menning 2013), Höfundar: Gunnar Jónsson og Jónbjörn Pálsson. (2013).

Did you find the content of this page helpful?