Rósafiskur

extrasDictionaryLang extrasDictionarySynonyms
Latin: Rhodichthys regina
Danish: rød dyphavsringbug
Faroese: kongasúgfiskur
Norwegian: kongeringbuk
English: threadfin sea snail
French: limace de mer à filaments
Russian: Родихтис атлантический / Rodikhtis atlantítsjeskij

Rósafiskur er þunnvaxinn og afturmjókkandi fiskur með stóran haus. Trjóna er örlítið framstæð og fiskurinn því undirmynntur. Bæði nasaopin eru eins og lítil göt. Tálknaop eru mjög stór. Bak- og raufaruggi eru langir, sporðblaðka er lítil og vel afmörkuð frá bak- og raufarugga. Efri fön eyrugga er með 11-12 geisla en neðri hlutinn er með tvær eða þrjár þráðlaga greinar sem byrjar á kverk. Rósafiskur hefur mælst stærstur 31 cm.

Litur: Rósafiskur er rauður til ljósfjólublár á lit og eru fullorðnir fiskar hálfgegnsæir. Lífhimna er svört.

Geislar: B: 56-60; R: 54-57; hryggjarliðir: 62-69.

Heimkynni rósafisks eru í djúpum Norður Atlantshafs og Íshafsins. Einnig mun hann hafa fundist í Baffinsflóa við Kanada. Á Íslandsmiðum fannst hann fyrst í Ingólfsleiðangrinum 1895-1896 djúpt austur og norðaustur af Langanesi. Árin 2000-2002 veiddust 7 rósafiskar á Íslandsmiðum, þrír þeirra á 970-1130 m dýpi á Norðurkanti (68°00´-68°10´N og 19°48´-20°42´V) og fjórir á 920-1170 m dýpi norðaustur af Langanesi (66°33´-66°44´N og 12°22´-12°42´V).

Lífshættir: Rósafiskur er djúpfiskur og kaldsjávarfiskur, ýmist við botn eða miðsævis. Hann heldur sig mest á eða yfir leirbotni á um 900-2400 m dýpi og við minna en 0°C. Fæða er ýmiss konar svifkrabbadýr.

Kynþroska hrygnur, 25-28 cm langar, hafa veiðst í júnílok með 44-59 egg en eggin eru 5,5 mm í þvermál. Með þessum stóru eggjum eru einnig lítil egg, um 1 mm í þvermál.

 

Byggt á bókinni, Íslenskir fiskar. ( Mál og menning 2013), Höfundar: Gunnar Jónsson og Jónbjörn Pálsson. (2013).

 

 

Did you find the content of this page helpful?