Rauðserkur

extrasDictionaryLang extrasDictionarySynonyms
Latin: Beryx decadactylus
Danish: Nordisk beryx
Faroese: Reyðserkur
Norwegian: Beryx
Swedish: Nordisk beryx
Plish: Beryks krepy
English: Red bream
German: Kaiserbarsch
French: Dorade rose
Spanish: Béryx rouge
Portuguese: Imperador
Russian: Берикс / Bériks, Крaсный берикс / Krásnyj bériks, Берикс альфонсо / Bériks al'fónsos

Rauðserkur er hár og þunnvaxinn fiskur, hausstór og stóreygur. Ungir fiskar eru með sterklegan gadd á haus. Neðri skoltur teygist örlítið fram fyrir þann efri. Tennur eru smáar. Gómbein og plógbein eru tennt. Koktennur eru vel þroskaðar. Bakuggi er allstór, á miðju baki og með fjórum broddgeislum. Fjórði geislinn er lengstur og teygist aftur á ungum fiskum. Raufaruggi er stór, lengri en bakuggi og fremri rætur hans eru framan við aftari rætur bakugga. Sporður er stór og djúpsýldur. Spyrðustæði er frekar grannt. Eyr- og kviðuggar eru í meðallagi. Hreistur er stórt. Rauðserkur nær allt að 100 cm. Í mars 1950 veiddist 63 cm rauðserkur í sunnanverðu Jökuldjúpi og er hann sennilega sá stærsti sem veiðst hefur á Íslandsmiðum.

Litur: Rauðserkur er rauður og appelsínugulur á lit.

Hryggjarliðir: 24.

Heimkynni rauðserks eru í Miðjarðarhafi og Atlantshafi frá Íslandi (e.t.v. flækingar við Grænland) og Noregi í norðri, vestur fyrir Bretlandseyjar og þaðan suður til Suður-Afríku. Einnig er hann í vestanverðu Norður-Atlantshafi frá Nýja-Skotlandi og Maineflóa suður til Kúbu og norðanverðrar Suður-Ameríku. Þá er hann í Suðvestur- Atlantshafi undan ströndum Argentínu, Urúgvæ og Suður-Brasilíu. Einnig í Indlandshafi, við Ástralíu, Nýja-Sjáland, Japan og Hawaiieyjar í Kyrrahafi.

Hér við land fannst rauðserkur fyrst í mars árið 1950 í sunnanverðu Jökuldjúpi (63°50'N, 24°25'V). Síðan hafa nokkrir bæst við á svæðinu frá Rósagarði undan Suðausturlandi og vestur með suðurströndinni og norður með Vesturlandi allt norður á Halamið undan Norðvesturlandi. Fiskar þessir voru 39-63 cm langir.

Lífshættir: Rauðserkur er botn- og djúpfiskur sem veiðst hefur á 200-990 m dýpi, einkum í landgrunnshöllum. Ungir fiskar, allt að 25 cm lengd, halda sig meira miðsævis.

Fæða er einkum alls konar krabbadýr, Iitlir fiskar og smokkfiskur.

Nytjar: Þar sem eitthvað veiðist af rauðserk er hann settur á markað og nýttur.

 

Byggt á bókinni, Íslenskir fiskar. ( Mál og menning 2013), Höfundar: Gunnar Jónsson og Jónbjörn Pálsson. (2013).

Did you find the content of this page helpful?