Rauða sævesla

extrasDictionaryLang extrasDictionarySynonyms
Latin: Gaidropsarus argentatus
Danish: kortstrålet arktisk havkvabbe
Faroese: reyda hornabrosma
Norwegian: sølvtangbrosme
English: silver rockling, arctic rockling
German: Arktische Seequappe
French: motelle arctique, mustèle argentée

Rauða sævesla er langvaxinn og sívalur fiskur. Haus er í meðallagi stór, kjaftur lítill, granir þykkar og tennur smáar. Augu eru lítil. Á snjáldri eru tveir samstæðir þræðir og einn á höku. Bolur er alllangur og stirtla í meðallagi löng. Fremri bakuggi er einn langur þráður auk fjölda burstalaga smágeisla en aftari bakuggi er langur og lágur. Raufaruggi er styttri en aftari bakuggi og sporður er af meðalstærð. Eyruggar eru vel þroskaðir, kviðuggar mjóir og langir og teygist annar geisli þeirra út í langan þráð. Hreistur er smátt. Rák er hátt uppi á bol en sveigir í stórum bug niður á miðja stirtlu.

Rauða sævelsla getur orðið 42 cm á lengd.

Litur er rauðgrár nema hvað hann er blágrár á haus og kvið. Skeggþræðir og uggaendar eru rauðir. Kjaftur er hvítur að innan.

Geislar: B1: 1+n; B2: 52-62; R: 43-49; hryggjarliðir: 49-53.

Heimkynni rauðu sævelsu eru í Norður Atlantshafi við Vestur og Austur- Grænland, Ísland, Færeyjar og Noreg. Þessi tegund hefur fundist m.a. við Baffinsland, Labrador og á Stórabanka við Nýfundnaland. Rauða sævesla fannst fyrst á Íslandsmiðum á 215 m dýpi í Húnaflóa árið 1890. Síðan hefur hún veiðst oft á allmiklu dýpi, einkum í kalda sjónum norðvestan-, norðaustan- og austanlands en hún veiðist einnig undan Suðvestur- og Suðurlandi og virðist ekki vera mjög sjaldgæf.

Lífshættir: Rauða sævesla er botn- og djúpfiskur á 55 til rúmlega 1400 m dýpi, oftast á leirbotni.

Fæða er einkum smákrabbadýr eins og ljósáta, marflær o.fl. en einnig fiskar.

Um hrigningu hér við land er ekkert vitað.

 

Byggt á bókinni, Íslenskir fiskar. ( Mál og menning 2013), Höfundar: Gunnar Jónsson og Jónbjörn Pálsson. (2013).

 

Did you find the content of this page helpful?