Ranaáll

extrasDictionaryLang extrasDictionarySynonyms
Latin: Venefica procera

Mjög langvaxinn állaga fiskur, hæstur nálægt miðju og mjókkar til beggja enda. Bolur sívalur framan til, en þynnist aftur eftir. Haus er mjór, keilulaga og með langa trjónu, trjónan er um helmingur af hauslengdinni. Efri skoltur er nokkuð lengri en sá neðri, eða sem nemur nálægt þvermáli augna. Fram úr efra skolti gengur rani eða sepi og er lengd hans um tvöfalt þvermál augna. Kjaftur nær vel aftur fyrir augu. Fremri nasir eru fremst á trjónu, við rætur ranans. Aftari nasir eru stórar, skásettar og opnast við fremri jaðar augna. Tennur í skoltum eru smáar, keilulaga og eru í mjóum beltum. Í neðri skolti breikka tannbeltin lítillega þar sem þau koma saman fremst á kjálkunum svo þau falla vel í bilið milli gómtanna og efriskoltstanna. Þar sem belti efriskoltstanna koma saman fremst á trjónu myndast breiður tannaflötur sem er vel aðskilinn frá gómtönnum. Gómtennur á löngu, mjóu belti. Tálknaop eru lítil og lágstæð. Bakuggi byrjar yfir tálknaopi, bak-, sporð- og raufaruggar samvaxnir. Eyrugga og kviðugga vantar. Ranaáll getur orðið a.m.k. 109 cm langur.

Litur: Ranaáll er brúnn eða grábrúnn á Iit.

Heimkynni ranaáls eru í vestanverðu Atlantshafi, frá Norður-Karólínufylki í Bandaríkjunum suður um Mexíkóflóa og Karíbahaf allt til Surinam. Í austanverðu Atlantshafi frá Marokkó til Suður-Afríku og í vestanverðu Indlandshafi er önnur tegund, V. proboscidea. Í byrjun október árið 2009 veiddist ranaáll í leiðangri Hafrannsóknastofnunar á 1240 m dýpi vestur af Faxaflóa (64°29'N, 28°32'V). Það vantaði aftan á fiskinn, en það sem upp kom mældist 84 cm.

Lífshættir. Ranaáll er botn- og djúpfiskur sem veiðst hefur á 830-2300 m dýpi.

Fæða mun einkum vera hryggleysingjar og smáfiskar.

 

 

Byggt á bókinni, Íslenskir fiskar. ( Mál og menning 2013), Höfundar: Gunnar Jónsson og Jónbjörn Pálsson. (2013).

Did you find the content of this page helpful?