úthafsrækja (icelandic)

Rækja

extrasDictionarySynonymsIcelandic:
djúprækja, stóri kampalampi, úthafsrækja
extrasDictionaryLang extrasDictionarySynonyms
Latin: Pandalus borealis
Danish: dyphavsreje, Grønlandsreje
Norwegian: dyphavsreke, dypvannsreke, reke
English: deep water prawn, deepwater red shrimp, pink shrimp
German: Tiefseegarnele
French: crevette nordique
Spanish: camarón norteño
Portuguese: camarão-árctico
Russian: Sévernaja krevétka

Rækja er aflöng og flöt á hliðum, aftari hluti hennar er hali sem sveigist niður á við en fram úr henni gengur trjóna og fálmarar. Fullvaxin er hún 85 til 150 mm löng, ef trjónu og fálmurum er sleppt. Rækja hefur um sig skel úr kítíni og kalki og er rauð eða ljósrauð á litinn.

Fremri helmingur dýrsins er hulinn einum samfelldum skildi en aftari helmingurinn, halinn, er liðskiptur, gerður úr sex liðum. Ofan á þriðja halalið er lítill hryggur og broddur. Aftast er sporður, gerður úr fimm blöðkum. Fjórir fálmarar ganga fram úr dýrinu. Augun standa á stuttum stilkum og milli þeirra gengur fram tennt trjóna. Neðan á bolnum eru fimm mjóslegin fótapör og eru tangir fremst á fyrstu tveimur pörunum. Neðan á hverjum halalið er fótapar sem enda í sundblöðkum. Þegar rækja er á botni gengur hún á fótum frambolsins og færist áfram en á sundi slær hún halanum undir sig með snöggum hreyfingum og skýst þá aftur á bak.

Hér við land er algengast að rækja sé á 50 til 700 m dýpi. Hún heldur sig mest á leirbotni en finnst þó stundum einnig á hörðum botni.

Fæða rækju er aðallega smádýr sem lifa á botni eða nálægt botni. Rækja lyftir sér frá botni eftir að dimmt er orðið og veiðir þá svifdýr sér til matar. Þegar birtir aftur leitar hún botns á ný. Rækja getur einnig nýtt sér hræ sem falla til botns.

Rækja er tvíkynja. Hún verður fyrst kynþroska sem karldýr en skiptir síðan um kyn og verður að kvendýri. Mökun verður á haustin skömmu eftir að kvendýrin hafa skelskipti og meðan þau hafa enn lina skel. Hrygningartími rækjunnar er á haustin. Hvert kvendýr getur hrygnt 300 til 1.700 eggjum, allt eftir stærð. Við hrygningu límast frjóvguð eggin við halafæturna á kvendýrinu sem ber eggin undir halanum þar til þau klekjast út næsta vor.

Í byrjun maí klekjast eggin og þá fara fyrstu lirfurnar að sjást í svifinu. Þær eru þá um 1 mm að stærð. Lirfurnar lifa í svifinu fram á mitt sumar. Hún er nú um 3 mm að lengd og leitar botns. Á botni þroskast ungviðið fljótt.

 

Did you find the content of this page helpful?