Punktalaxsíld

extrasDictionaryLang extrasDictionarySynonyms
Latin: Myctophum punctatum
Danish: slankhalet prikfisk
Faroese: stóri prikkafiskur
Norwegian: liten lysprikkfisk
Swedish: liten prickfisk, mindre prickfisk
English: spottet lanternfish
German: Schlankschwänziger Lanternfisch
French: lanterne ponctuée
Spanish: romerillo
Portuguese: liro-preto

Punktalaxsíld er hausstór, langvaxinn, þunnvaxinn og nokkuð hávaxinn fiskur með stór augu. Skoltar ná aftur fyrir augu. Bolur er styttri en stirtla. Raufaruggi er mun lengri en bakuggi og byrjar andspænis eða rétt framan við aftari rætur bakugga. Veiðiuggi er um miðja vegu á milli bakugga og sporðs. Eyruggar ná aftur á móts við miðja bakugga og kviðugga byrjar á móts við eða framan við fremri rætur bakugga.

Punktalaxsíldin hefur þrjú neðri skoltsljósfæri, kjammaljós, tvö tálknaloksljós, forljós, tvö eyruggaljós, fjögur brjóstljós, fjögur raufarljós, átta raufaruggaljós, níu stirtluljós og þrjú eða fjögur þeirra yfir aftari hluta raufarugga, tvö spyrðuljós, eitt hliðarljós, ofnaraufarljós og kviðuggaljós. Punktalaxsíld verður um 11 cm á lengd.

Litur er móleitur að ofan en með perlugljáa á hliðum og að neðan.

Geislar: B: 12-14; R: 18-22; hryggjarliðir: 40.

Heimkynni punktalaxsíldar eru í Miðjarðarhafi og Norður- Atlantshafi heimsálfa á milli frá 15° -20°N og norður til Noregs, Íslands og Austur- og Vestur-Grænlands. Hér fannst punktalaxsíld fyrst í október árið 1902 þegar 10 cm fisk rak í Vestmannaeyjum. Síðan hefur hennar orðið vart undan Suður- og Vesturlandi.

Lífshættir: Punktalaxsíld er úthafs- og miðsævisfiskur sem veiðst hefur frá yfirborði og niður á 1000 m dýpi. Fæða hennar er einkum krabbaflær, ljósáta, sviflirfur, stórkrabba og fiskseiði. Sjálf er punktalaxsíld mikilvæg fæða ýmissa fisktegunda, ma.a. þorsks á norðurslóð og sverðfisks þegar sunnar dregur. Hrygning á sér stað sunnar í Atlantshafi og í MIðjarðarhafi síðla vetrar og að vori.

 

Byggt á bókinni, Íslenskir fiskar. ( Mál og menning 2013), Höfundar: Gunnar Jónsson og Jónbjörn Pálsson. (2013).

Did you find the content of this page helpful?