Pokakjaftur

extrasDictionaryLang extrasDictionarySynonyms
Latin: Saccopharynx ampullaceus
Danish: Slugål
Swedish: Sväljarål
Plish: Gardzielec
English: Gulper eel
French: Avaleur feu-arrière

Myndin af pokakjafti er tekin af eintaki sem var búið að vera í frosti, henni verður skipt út um leið og færi gefst.

 

Á baki og hala pokakjafts eru allt að 90 bak- eða hliðstæðir mislangir þræðir og ljósfæri er á halaenda. Í júlí 1995 veiddist 175 cm pokakjaftur á grálúðuslóð vestan Víkuráls.

Litur: Pokakjaftur er svartur á lit. Heimkynni pokakjafts eru m.a. í norðaustanverðu Atlantshafi en þar finnst hann á milli 10° og 66°N. Flestir hafa fundist á milli 30° og 50°N. Pokakjaftur finnst einnig undan austanverðum Bandaríkjunum og hans hefur orðið vart undan Suðvestur- og Vestur Grænlandi.

Í desember árið 1961 veiddist pokakjaftur á 385 m dýpi í Grænlandssundi (65°20'N, 30°30'V) rétt vestan 200 sjómílna markanna. Í júní árið 1973 veiddist annar á 255-310 m dýpi í utanverðum Víkurál og sá fyrsti innan 200 sjómílna markanna við ísland og í maí 1990 fengust tveir á 545-990 m dýpi á grálúðuslóðinni vestan Víkuráls. Tveir, annar 40- 50 cm en hinn 124 cm, veiddust á sömu slóðum í apríl árið 1991. Í maí 1994 veiddist 110 cm langur pokakjaftur einnig vestan Víkuráls og annar 175 cm langur veiddist á sömu slóðum í júlí árið 1995. Einn veiddist rétt utan 200 sjómílna markanna á Reykjaneshrygg árið 1997. Einn veiddist á 500-936 m dýpi djúpt suðvestur af Reykjanesi (62°58'N, 28°54'V) í júníárið 2003. Hann var 122 cm langur. Þannig hafa veiðst átta pokakjaftar innan 200 sjómílna markanna við Ísland og tveir rétt utan þeirra á árunum 1961-2003 en alls munu um 100 hafa veiðst í heimshöfunum til þessa.

Lífshættir: Pokakjaftur er miðsævis- og djúpfiskur sem veiðist helst á 1000-3000 m dýpi en á íslandsmiðum fæst hann þó stundum grynnra. Fæða er einkum fiskar af ýmsum stærðum.

 

Byggt á bókinni, Íslenskir fiskar. ( Mál og menning 2013), Höfundar: Gunnar Jónsson og Jónbjörn Pálsson. (2013).

Did you find the content of this page helpful?