Pétursfiskur

extrasDictionaryLang extrasDictionarySynonyms
Latin: Zeus faber
Danish: Sankt Petersfisk
Faroese: Sankta pætursfiskur
Norwegian: St. Petersfisk
English: St. Peter's fish
German: Hering-könig
Spanish: Pez de San Pedro
Portuguese: Galo-negro

Pétursfiskur er hávaxinn, þunnvaxinn og hausstór fiskur. Kjaftur er einnig stór og skoltar geta glennst vel út. Uggar eru frekar stórir, einkum bak- og kviðuggar en eyruggar eru smærri. Geislar í fremri hluta bakugga eru mjög langir. Hreistur er mjög smátt. Eftir kviðrönd frá kviðuggum að fremri hluta raufarugga eru beinskildir, einnig við rætur bak- og raufarugga. Fiskurinn getur náð um 70 cm lengd.

Litur er gul-grængrár eða silfurbronsaður. Á hvorri hlið er stór dökkur blettur í Ijósri umgjörð.

Heimkynni: Pétursfiskur lifir í Atlantshafi frá Suður-Noregi, Norðursjó og Bretlandseyjum suður í Biskajaflóa og Miðjarðarhaf. Einnig meðfram ströndum Afríku allt til Góðrarvonarhöfða. Þá er hann í Indlandshafi meðfram Afríku til Kenýa. Einnig við Japan, Astralíu og Nýja-Sjáland. Hann hefur flækst til Bill Bailysbanka suðvestan Færeyja og í september 2004 veiddist sá fyrsti á Íslandsmiðum en þá fékkst 31 cm langur pétursfiskur út af Sandgerði.

Lífshættir: Pétursfiskur heldur sig mest við botn eða í botnnánd, einkum á 50-150 m dýpi en hefur veiðst allt niður á 400 m. Oftast er hann einfari, sjaldnar torfufiskur. Fæða er alls konar fisktegundir auk krabbadýra. Hrygning á sér stað í júní til ágúst í Biskajaflóa og vestanverðu Ermarsundi en nokkuð fyrr í Miðjarðarhafi. Egg eru sviflæg.

Nytjar: Pétursfiskur er verðmætur matfiskur þar sem hann veiðist sem aukaafli við botnvörpu- og línuveiðar, m.a. í Miðjarðarhafi, við vesturströnd Afríku og víðar.

 

Byggt á bókinni, Íslenskir fiskar. ( Mál og menning 2013), Höfundar: Gunnar Jónsson og Jónbjörn Pálsson. (2013).

Did you find the content of this page helpful?