Pálsfiskur

extrasDictionaryLang extrasDictionarySynonyms
Latin: Zenopsis conchifera
Danish: Amerikansk sanktpetersfisk
Plish: Piotrosz amerykanski
English: Buckler dory
French: Saint Pierre argenté

Pálsfiskur er hávaxinn og mjög þunnvaxinn, með allstóran haus og nokkuð stór augu. Kjaftur er mjög stór og skásettur og geta skoltar glennst vel út. Tennur á skoltum eru smáar til meðalstórar. Bakuggi er tvískiptur og er fremri hluti hans hár og broddgeislaður og teygjast fremstu geislar hátt upp en aftari hluti er lægri og með liðgeislum. Þrír fremstu geislar raufarugga eru broddgeislar en aðrir geislar liðgeislar. Liðgeislahlutar bak- og raufarugga eru jafnlangir og svipaðir að lögun. Eyruggar eru frekar stuttir en kviðuggar sem eru framan við eyrugga mun lengri. Sporðblaðka er stór. Spyrðustæði er mjög grannt. Rák er greinileg og liggur í stórum boga yfir eyruggum. Ekkert hreistur er á haus né hliðum en 7-8 hreisturflögur eru eftir kviði á milli kviðugga og raufar og 7- 9 stórar bogadregnar beinflögur eru meðfram rótum bakugga og 5-7 við rætur raufarugga. Pálsfiskur getur náð um 80 cm lengd.

Litur: Pálsfiskur er silfurgrár á lit. Dökkur blettur er á miðjum fiski, uggahimnur dökkar og svartir blettir á víð og dreif á bol og stirtlu ungra fiska.

Heimkynni: Þessi tegund hefur veiðst í Norðaustur-Atlantshafi, norðvestur, vestur og suðvestur af Írlandi og í Biskajaflóa suður til Marokkós í Afríku. Í Suðaustur-Atlantshafi frá Walvisflóa í Namibíu og suður fyrir Góðrarvonarhöfða og þaðan inn í Indlandshaf. Í Norðvestur-Atlantshafi undan austurströnd Ameríku frá landgrunnsbrúnum við Sable-eyju undan Nýja-Skotlandi til Norður-Karólínu og allt suður til Argentínu.

Hér við land veiddist einn, 24,5 cm langur, þ.e. ungur fiskur, í dragnót á 73 m dýpi á Sandvík norðan Reykjaness (63°50'N, 22°45'V) seint í apríl árið 2002. Árið 2008 veiddust alls fimm pálsfiskar við landið frá því í febrúar og fram í júní. Einn veiddist í dragnót, hinir í botnvörpu. Veiðisvæðið var frá Grindavíkurdjúpi (63°29'N, 22°35'V) um Eldeyjarboða (63°42'N, 23°35'V) og Jökultungu (64°17'N, 24°40'V) norður undir Svörtuloft (64°52'N, 24°04'V) og á 80-420 m dýpi. Þessir fiskar mældust 26-31 cm á lengd. Árið 2012 veiddist einn í Ísafjarðardjúpi.

Lífshættir: Pálsfiskur er miðsjávar- og botnfiskur sem veiðst hefur á um 50-600 m dýpi en er mest á 200-300 m og oft í smáum torfum. Fæða er einkum fiskar. Um hrygningu er lítið vitað nema undan Vestur-Afríku fer hún fram að sumri til.

 

Byggt á bókinni, Íslenskir fiskar. ( Mál og menning 2013), Höfundar: Gunnar Jónsson og Jónbjörn Pálsson. (2013).

Did you find the content of this page helpful?