Nefáll

extrasDictionaryLang extrasDictionarySynonyms
Latin: Nessorhamphus ingolfianus
English: Duckbill oceanic eel

Auk þess sem segir í ættarlýsingu er einkenni nefáls m.a. að trjónan er mjög löng og efri skolturinn teygist fram fyrir þann neðri eins og flöt tota. Fremri nasir eru endastæðar en þær aftari vísa upp og eru hliðlægar þar sem neftotan er mjóst. Kjaftur nær vel að augum eða lengra og tennurnar eru á skoltum og plógbeini. Tálknaopin eru smá og lágstæð. Nefállinn hefur enga kviðugga. Rákarop eru 132. Hryggjarliðir eru 150-159 og þar af eru bolliðirnir 98 talsins. Nefáll getur orðið 68 cm langur.

Litur er gráleitur og með svörtum deplum eða punktum.

Heimkynni nefáls eru einkum í hlýrri hlutum heimshafanna. Í norðaustanverðu Atlantshafi hefur hann m.a. fundist undan Afríku norðvestanverðri, á Spáni, í Portúgla, Biskajaflóa og við Ísland. Í norðvestanverðu Atlantshafi hefur hann veiðst undan Kanada, út af Stórabanka, Georgsbanka og á Sableeyjabanka.

Tveri nefálar veiddust á Íslandsmiðum árið 1997 og voru þeir 52 og 64 cm langir og veiddust á 915-1060 m dýpi á Reykjaneshrygg (61°19´N, 27°52°´og 61°43´N, 27°12´V).

Einn, 62 cm langur, veiddist í júlí árið 2001 á 720 m dýpi djúpt suðvestur af Reykjanesi (62°05´N, 27°08°V).

Þá veiddist 68 cm langur nefáll, og sá lengsti sem náðst hefur, á 610 m dýpi í Grænlandshafi utan 200 sjómílna markanna (61°22´N, 31°58´V) í maí árið 1998 og tveir, 50 og 58 cm langir, veiddust í júní 2003 á um 150-850 m dýpi nokkuð utan við íslenska lögsögu suðvestur af landinu (62°03´N, 32°44´V og 60°49´N, 30°03´V). Árið 2006 veiddist 65 cm nefáll á 1040-1050 m dýpi vestur af Víkurál (65°24´N, 28°25´N) og er það nyrsti fundur til þessa. Þessir fiskar eru mun stærri en fiskar sömu tegundar sem hafa veiðst í heimshöfunum en þar eru þeir stærstu um 30 cm langir.

Lífshættir: Nefállinn er botn og miðsævisdjúpfiskur sem fundist hefur allt niður á 1800 m dýpi. Fæða hans er einkum smákrabbadýr af ýmsu tagi.

 

Byggt á bókinni, Íslenskir fiskar. ( Mál og menning 2013), Höfundar: Gunnar Jónsson og Jónbjörn Pálsson. (2013).

 

Did you find the content of this page helpful?