Mjúkhaus

extrasDictionaryLang extrasDictionarySynonyms
Latin: Rouleina attrita
Danish: nøgen glathovedfisk, Blødskindet glathovedfisk
English: Softskin smoothhead

Mjúkhaus er þunnvaxinn og hausstór fiskur, með allstór augu framan við miðjan haus. Efri skoltur nær aftur fyrir augun. Bak- og raufaruggar eru aftarlega á stirtlu andspænis hvor öðrum og svipaðir að stærð, bakuggi er þó ívið lengri. Eyr- og kviðuggar eru frekar smáir. Kviðuggar eru um miðjan fisk eða rétt framan við miðju. Sporðblaðka er sýld. Rák er allgreinileg og eru 43-48 hreisturblöð eftir henni endilangri. Annars vantar hreistur og mjúkhaus hefur engin ljósfæri. Hann verður um 49 cm á lengd.

Litur er svartur.

Geislar: B: 18-21; R: 18-21; hryggjarliðir: 43-46.

Heimkynni mjúkhauss eru í austan- og vestanverðu Atlantshafi, Suðaustur- Kyrrahafi og Suðvestur-Indlandshafi. Í norðaustanverðu Atlantshafi, hefur hann m.a. veiðstu undan Marokkó, við Asóreyjar og suður til Grænhöfðaeyja. Þá hefur hann veiðst vestan Bretlandseyja og á Íslandsmiðum. Einnig við Suðaustur- og Suðvestur-Grænland. Fyrst vaðr hans vart hér í apríl árið 1993 en þá veiddist einn 30 cm langur á grálúðuslóð vestan Víkuráls og var ranglega greindur sem Rouleina maderensis. Tveimur árum síðar veiddust tveir sem mældust 22 og 36 cm langir á svipuðum slóðum (65°28´N, 28°20´V til 65°16´N, 28°20´V) og einn 46 cm langur bættist við í júní sama ár. Síðan hafa þrír, 28,30 og 49 cm (og þar með sá lengsti sem vitað er um) fengist til viðbótar 1996 og 1997 á svipuðum slóðum.

Lífshættir: Mjúkhausinn er djúpfiskur sem heldur sig einkum á 1400-2100 m dýpi. Um fæðu og hrygningu er lítið vitað ennþá. Egg eru stór um 3,2 mm í þvermál.

 

Byggt á bókinni, Íslenskir fiskar. ( Mál og menning 2013), Höfundar: Gunnar Jónsson og Jónbjörn Pálsson. (2013).

 

Did you find the content of this page helpful?