Maríuskata

extrasDictionaryLang extrasDictionarySynonyms
Latin: Bathyraja spinicauda
Danish: tornhalet rokke
Faroese: halahvassa skøta
Norwegian: gråskate
Swedish: taggsvansrocka
English: spinetail skate
German: Grönlandrochen
French: raie à queue épineuse
Russian: Шипохвостый скат / Shipokhvóstyj skat

Maríuskata þekkist meðal annars á því að yfirborð skífu og hala er meira og minna smágöddótt að ofan en slétt að neðan. Á halanum er einföld röð 21-26 gadda sem ná frá miðjum kviðuggum aftur að fremri bakugga. Einn gaddur er á milli bakugga. Engir stórir gaddar eru í kringum augu né á herðum eða miðbelti. Skífan er örlítið breiðari en hún er löng. Trjóna er oddmjó. Maríuskata getur orðið allt að 172 cm á lengd og 110 cm á breidd. Hér við land hefur maríuskata mælst lengst 153 cm.

Litur: Maríuskata er ljósbrún eða blágrá á lit að ofan, stundum mógrá eða grá. Halafaldur og neðri hlið eru hvít. Halinn er stundum gráflekkóttur að neðan.

Heimkynni maríuskötu eru í Barentshafi umhverfis Bjarnareyju, við Ísland og suður í norðanverðan Norðursjó. Þá hefur hún veiðst einu sinni norðvestan Írlands. Einng er hún við Grænland og Norður-Ameríku suður til Nýfundnalands. Við Ísland veiddust tvær maríuskötur, 116 cm hængur og 125 cm hrygna, á línu á 445 m dýpi 187 sjómílur suðaustur af Gerpi undan Austurlandi árið 1924. Síðar veiddust nokkrar maríuskötur á 140-160 m dýpi undan Vesturhorni (við suðaustur ströndina). Allmargar maríuskötur hafa svo veiðst á undanförnum árum, 28-153 cm langar, á 500-1265 m dýpi suðaustan-, vestan- og norðaustanverðu landinu, frá Rósagarði og einkum í Berufjarðarál norður á grálúðuslóð vestan Víkuráls. Einnig hefur hennar orðið vart á djúpmiðum undan Norðurlandi.

Lífshættir: Maríuskata er botnfiskur í köldum og kaldtempruðum sjó Norður- Atlantshafsins. Hún hefur veiðst á 140 -1265 m dýpi í 0-7,5 °C heitum sjó.

Lítið er vitað um komu ungviðis maríuskötunnar í þennan heim en pétursskip hennar eru stór, um 14 cm á lengd og 9,5 cm á breidd án þráða, hrjúf viðkomu og brún á lit. Þau hafa m.a. fundist á 550-880 m dýpi sunnan Vestmannaeyja (62 °59´N, 20 °20´V og 62 °52´N, 20 °20´V), 660930 m dýpi suður af Skaftárdjúpi (63 °03´N, 17 °50´V) og 675 m dýpi vestan Látragrunns (65 °40´N, 27 °50 °´).

Fæða maríuskötunnar er rækja, ýmsir fiskar, t.d. tindaskata og loðna.

Nytjar eru engar af maríuskötu enda veiðist ekki mikið af henni. Hún er þó vel æt.

 

Byggt á bókinni, Íslenskir fiskar. ( Mál og menning 2013), Höfundar: Gunnar Jónsson og Jónbjörn Pálsson. (2013).

 

Did you find the content of this page helpful?