Makríll

extrasDictionaryLang extrasDictionarySynonyms
Latin: Scomber scombrus
Danish: makrel
Faroese: makrelur
Norwegian: makrell
Swedish: makrill
English: Atlantic mackerel
German: Makrele
French: maquereau commun, maquereau de l'Atlantique
Spanish: caballa del Atlántico, xarda
Portuguese: sarda
Russian: Skúmbrija (atlantítsjeskaja), Макрель / Makrél'

Makríll er straumlínulaga fiskur, gildastur um miðju og mjókkar til beggja enda. Haus er í meðallagi stór, kjaftur er stór og neðri skoltur örlítið framteygður (yfirmynntur). Tennur eru smáar. Augu eru í meðallagi og húðfelling er yfir þeim að aftan og framan. Bakuggar eru tveir og er langt bil á milli þeirra. Auk þess eru fimm aðskildir smáuggar aftan við aftari bakugga svo og aftan við raufarugga en hann er andspænis aftari bakugga og svipaður honum að lögun og stærð. Sporður er djúpsýldur. Eyr- og kviðuggar eru allvel þroskaðir og eru kviðuggar undir eyruggum. Hreistur er smátt og aðeins á bol og stirtlu. Rák er bein og óslitin. Sundmagi er enginn en í hans stað er æðaríkur rauður vefur, á að giska tveggja cm breiður og liggur hann undir hryggnum. Makríll verður allt að 60 cm en algeng stærð er 35-46 cm. Hér við land hefur hann veiðst lengstur 57 cm.

Litur er breytilegur, oft grænn eða blár á baki með 30-35 dökkum hlykkjóttum skárákum eftir endilöngu baki. Hliðar eru silfurgljáandi með gullinni og purpuralitri slikju en kviður er hvítur og perlugljáandi.

Geislar: B1: VIII-XIV,- B2: 11-13; smáuggar: 5-6,- R: 1+11-13,- smáuggar: 5-6, hryggjarliðir: 30-31.

Heimkynni makríls eru í Miðjarðarhafi, Svartahafi og Norður-Atlantshafi frá Norðvestur-Afríku og Grænhöfðaeyjum, Madeira og Asóreyjum norður til Bretlandseyja og í Norðursjó, einnig í Eystrasalti, við strendur Noregs og til Múrmansk. Hann er við Færeyjar og til Íslands flækist hann alloft. Í Norður-Atlantshafi eru tveir stofnar, Norðursjávarstofninn eða austurstofninn og vesturstofninn sem er vestan Bretlandseyja. Við strendur Norður-Ameríku er makríll frá Labrador til Hatterashöfða í Norður-KaróIínu í Bandaríkjunum.

Til Íslandsmiða flækist makríllinn alloft. Fyrst er hans getið í Hafnarfirði árið 1895. Síðan hefur hann veiðst af og til allt í kringum landið og koma stundum smátorfur til landsins. Hans varð vart í torfum fyrir Norðurlandi árið 1904, í Seyðisfirði 1905, í Grundarfirði 1908, íSkagafirði 1928, fyrir Austfjörðum 1930, í Keflavík 1934, í Skerjafirði 1938, við Vestfirði og Norðurland 1944. Makríltorfu varð vart í sunnanverðum Faxalóa í september 1987 og veiddust nokkrir fiskar úr henni. Þá var allmikið um makríl við Suðausturland sumarið 1987 og við Suðurland sumarið 1991. Í júlí 1996 veiddist einn við Surtsey og í ágúst sama ár veiddust nokkrir makrílar undan Austur- og Norðausturlandi. Af þeim voru 53 mældir og reyndust þeir 34-44 cm. Árið 1997 veiddist makríll í Rósagarði og 1998 varð hans vart í Skerjadjúpi og í Garðsjó. Árin 2007—2012 var óvenju mikið um makríl á Íslandsmiðum en þá fannst hann allt í kringum landið og víða í miklu magni.

Lífshættir: Makríllinn er uppsjávar-, torfu- og göngufiskur. Hann er ágætur sundfiskur og mjög hraðsyndur. Því getur hann flækst víða. Á veturna heldur hann sig úti á reginhafi og við botn. Vetrarstöðvar Norðursjávarstofnsins eru í norðanverðum Norðursjó og í Skagerak en vesturstofnsins vestan og sunnan Bretlandseyja. Með vorinu leitar hann í stórum torfum nær landi til hrygningar og í leit að fæðu.

Fæða er mjög breytileg eftir aldri. Ungfiskar éta svifkrabbadýr, egg þeirra og seiði, auk fiskseiða. Fullorðnir fiskar éta svifkrabbadýr (rauðátu), ljósátu, krabbalirfur, pílorma og ýmsa fiska, t.d. síld, sardínu, brisling og sandsíli.

Makríllinn hrygnir í Miðjarðarhafi í mars og apríl, vesturstofninn hrygnir í maí til júní suðvestan Írlands og Norðursjávarstofninn í Norðursjó, Skagerak og Kattegat í júní til júlí. Hrygning fer fram við yfirborð. Fjöldi eggja er 200 þúsund til ein milljón. Eggin eru sviflæg, um 1-1,4 mm í þvermál og klekjast á um 6 dögum. Seiði eru 3,5—4,4 mm við klak og sviflæg fyrst í stað.

Að hrygningu lokinni hefjast ætisgöngur og þá er það sem hann álpast alla leið norður til Íslands. Er hann helst hér að finna seinni hluta sumars og fyrri hluta hausts (ágúst til september).

Óvinir eru margir. Auk mannsins eru þar fremst í flokki hámeri, háfar, túnfiskur og höfrungar.

Nytjar: Nytsemi makríls er mjög mikil. Makrílveiðar eru stundaðar af miklu kappi beggja vegna Norður-Atlantshafs. Hann er veiddur í herpinót, reknet, botnnet og á dorg.

Um nokkurra ára skeið gáfu Frakkar og fleiri núverandi Evrópusambandsþjóðir næstum árlega upp einhvern makrílafla á Íslandsmiðum, mest 636 tonn, árið 1967. Verður að teljast hæpið að svo mikið hafi verið veitt hér af makríl á þessum tíma. Árið 2011 varð afli Íslendinga tæp 159 þús. tonn.

 

Byggt á bókinni, Íslenskir fiskar. ( Mál og menning 2013), Höfundar: Gunnar Jónsson og Jónbjörn Pálsson. (2013).

Did you find the content of this page helpful?