Loðháfur

extrasDictionaryLang extrasDictionarySynonyms
Latin: Etmopterus spinax
Danish: sorthaj
Faroese: búksvarti hávur
Norwegian: blåmaga, jomfruskruv, småhai, svarthå
Swedish: blåkäxa
English: lantern shark, velvet belly
German: Kleiner schwarzer Dornhai
French: sagre commun
Spanish: negrito
Portuguese: lixinha-da-fundura
Russian: Чёрная колю́чая акула / Tsjórnaja koljútsjaja akúla

Loðháfur er mjóvaxinn og hálfþrístrendur, bolurinn fremur stuttur og stirtlan grönn, en sporður og haus eru allstór. Trjónan er þykk og breið og nasirnar víðar. Augu loðháfs eru stór og augasteinar eru grænir, tálknaop eru lítil. Efriskoltstennur eru eins og í háfi. Aftari bakuggi er stærri en sá fremri. Báðir eru þeir með langan og hvassan gadd og sá aftari er stærri. Húðtennur eru smáar og með þrí- eða fjórklofnum fæti og mjóum broddi sem veit aftur og gerir roðið floskennt. Loðháfur er með ljósfæri og stafar frá þeim grænleitri skímu. Loðháfur er minnsta gaddaháfstegunin á Íslandsmiðum og verður hann varla lengri en 50-60 cm.

Litur: Loðháfur er brúnn að ofan og á hliðum en svartur á kviði og neðanverðri stirtlu. Á milli augna er oft ljós blettur.

Heimkynni loðháfs eru í austanverðu Atlantshafi frá vestur- og suðvesturströnd Íslands til Færeyja og Tromsö í Noregi. Hann er í Skagerak og Norðursjó en ekki í Eystrasalti. Þá finnst hann umhverfis Bretlandseyjar og þaðan suður í vestanvert Miðjarðarhaf og veiðist við Asóreyjar og Grænhöfðaeyjar, einnig við vestanverða Afríku og við Suður-Afríku. Hér fannst loðháfur fyrst í Háfadjúpi í júlí árið 1901. Þar virðist vera mikið um hann, svo og við suðvesturströndina á 400-600 m dýpi, en hann er allt frá suðausturmiðum norður fyrir Snæfellsnes og norður á grálúðuslóð vestan Víkuráls niður á 780 m dýpi.

Lífshættir: Loðháfur er botn- og djúpfiskur sem hefur fundist niður á 2000 m dýpi. Hann gýtur 6-20 ungum í einu og eru þeir 11-14 cm langir við got. Gottíminn virðist ná yfir mikinn hluta ársins. Fæða loðháfa er einkum smáfiskar (gulldepla, laxsíld, geirsíli), smokkfiskar, rækja og önnur krabbadýr, t.d. ljósáta auk burstaormar o.fl.

 

 

Byggt á bókinni, Íslenskir fiskar. ( Mál og menning 2013), Höfundar: Gunnar Jónsson og Jónbjörn Pálsson. (2013).

 

Did you find the content of this page helpful?