Ljóshyrna

extrasDictionaryLang extrasDictionarySynonyms
Latin: Oneirodes carlsbergi

Ljóshyrna greinir sig m.a. frá öðrum fiskum ættarinnar í því að lengd veiðistangar út á enda ljósfæris er um fjórðungur til fimmtungur af fisklengdinni. Ljósfærið (agnið) teygist fram í grannan þráð og á enda hans eru oft tveir litlir separ. Neðri skoltur er um tveir fimmtu hlutar til helmingur fiskIengdar. Gaddur á neðriskoltsbeini er áberandi. Á hvorri hlið skolta eru 20-50 tennur og tvær til fjórar á hvorri hlið plógbeins. Ljóshyrna verður um 16 cm á lengd að sporði.

Litur: Ljóshyrna er dökk á lit.

Geislar: B: 5-6; R: 4,- E: 15-17; S: 9.

Heimkynni ljóshyrnu eru í Atlants- og Kyrrahafi. Hún hefur veiðst í hlýrri hlutum austanverðs Atlantshafs vestur að 35°49'V og á milli 17°49'N og 5°34'S og í austanverðu Kyrrahafi vestur að 148°35'V milli 12°07'N og 7°45'S. Þá veiddist ein ljóshyrna í vestanverðu Kyrrahafi (16°55'N, 120°A) og ein í norðaustanverðu Atlantshafi í landgrunnshallanum undan Írlandi, auk þess sem ein veiddist á rækjumiðunum við miðlínu á milli Íslands og Grænlands haustið 1985. Hún var ákvörðuð til tegundar af dr. Erik Bertelsen, fiskifræðingi í Kaupmannahöfn.

Lífshættir: Ljóshyrna er miðsævis- og djúpfiskur sem slæðist stundum upp á grynnra vatn en flestar aðrar tegundir ættarinnar. Meira en 70% þeirra ljóshyrna sem veiðst hafa voru á meira dýpi en 1000 metrum.

 

Byggt á bókinni, Íslenskir fiskar. ( Mál og menning 2013), Höfundar: Gunnar Jónsson og Jónbjörn Pálsson. (2013).

Did you find the content of this page helpful?