Litli sogfiskur

extrasDictionaryLang extrasDictionarySynonyms
Latin: Liparis montagui
Danish: særfinnet ringbug
Faroese: lítli súgfiskur
Norwegian: kystringbuk
Swedish: tångringbuk
English: Montagu´s seasnail
German: Kleiner Scheibenbauch
French: limace de Montagui
Russian: Lipáris Montegjú

Litli sogfiskur líkist stóra sogfiski en er þó minni eins og nafnið bendir til. Nasir eru ekki eins útstæðar og aftari nasir vantar. Hann er stuttvaxinn og þunnvaxinn, haus er kúptur að framan, trjóna ávöl og augu eru lítil. Bak- og raufaruggi eru svipaðir og á stóra sogfiski en ná þó ekki út á sporðblöðku. Eyruggar eru stóri og bogadregnir fyrir endann. Kviðuggar eru ummyndaðir í sogskál. Roðið er þakið smáum en ekki mjög þéttstæðum öðrum. Litli sogfiskur getur náð um 12 cm lengd.

Litur er breytilegur, oft gráleitur eða brúnleitur en ljósari að neðan.

Geislar : B:28-32; R: 22-25; hryggjarliðir: 33-37.

Heimkynni litla sogfisks eru í norðaustanverðu Atlantshafi frá Ermasundsstönd Frakklands og Bretlandseyjum um Norðursjó til Danmerkur, Noregs og norður í Hvítahaf. Hann er í Barentshafi við Svalbarða. Einnig er hann við Færeyjar og Ísland.

Hér við land fann Benedikt Gröndal, skáld og náttúrufræðingur, litla sogfisk fyrst árið 1886. Hann er á svæðinu frá Vestmannaeyjum og vestur um til Vestfjarðamiða og inn í Húnaflóa þar sem einn veiddist við Drangsnesi í júnímánuði árið 1977.

Lífshættir: Litli sogfiskur er botnfiskur á hörðum og þaragrónum botni, allt frá fjöruborði niður á 30 m dýpi, en sjaldan dýpra. Stundum má finna hann undir steinum í fjörupollum. Fæða litla sogfisks er einkum smákrabbadýr (ögn, kríli) og rækjuseiði. Hrygning fer fram hér í mars og apríl, við Bretlandseyjar í maí, Noregi í febrúar til maí og í Barentshafi í febrúar og mars. Egg eru um 1 mm í þvermál. Þeim er hrygnt í hrognabú sem fest eru við steina og þara. Lirfur og seiði eru sviflæg.

 

 

Byggt á bókinni, Íslenskir fiskar. ( Mál og menning 2013), Höfundar: Gunnar Jónsson og Jónbjörn Pálsson. (2013).

 

 

Did you find the content of this page helpful?