Litli lúsífer

extrasDictionaryLang extrasDictionarySynonyms
Latin: Himantolophus mauli

Litli lúsífer er Iítill og þykkvaxinn fiskur, hausstór og kjaftvíður með oddhvassar tennur og smá augu. Mest einkennandi er löng „veiðistöng" upp úr miðju enni. Hún rís fyrst sem einn stilkur en um miðju þykknar hún og klofnar síðan í tvennt og myndar hvítan fork. Endar hennar ná vel aftur fyrir sporðblöðku eða lengra. Á neðri hluta stangar eru engir eða mjög smáir þræðir. Bakuggi er aftarlega og andspænis honum er raufaruggi. Sporður er allstór, eyruggar frekar smáir og kviðugga vantar. Gaddaðar beinplötur eru á víð og dreif um roðið. Litli lúsífer getur orðið a.m.k. 28 cm á lengd.

Litur: Litli lúsífer er svartur eða grásvartur á lit.

Geislar: B: 5, R: 4; E: 15-17.


Heimkynni: Litli lúsífer hefur veiðst beggja vegna Norður-Atlantshafs, á milli 25° og 50°N og djúpt undan suðvesturströnd Íslands, svo og á grálúðuslóð vestan Víkuráls. Fyrst varð hans vart hér við land í maí árið 1991 en þá veiddist 18 cm fiskur þessarar tegundar á 365-440 m dýpi innan 200 sjómílna markanna djúpt suðvestur af Reykjanesi. Síðan hafa nokkrir bæst við á svæðinu frá Reykjaneshrygg norður og vestur í Grænlandssund, þar á meðal einn 24 cm langur í febrúar 1994 og þrír í maí og júní árið 1997. Þrír veiddust árið 1998 í flotvörpu á 732 m dýpi djúpt vestur af Reykjanesi. Þeir voru 16-25 cm langir. Einn veiddist í lok júní 1999 djúpt suðvestur af Reykjanesi (62°55'N, 26°38'V) í flotvörpu á 730 m dýpi. Hann var 28 cm langur.

Árið 2000 veiddust tveir, annar í maí, 14 cm, á Reykjaneshrygg (61°28'N, 27°38'V) á 1025 m dýpi, hinn í september, 17 cm, á 659 m dýpi vestur af Bjargtöngum (65°38'N, 27°30'V). Tveir veiddust í flotvörpu á Reykjaneshrygg árið 2005. Þeir voru 19 og 23 cm langir. Þá veiddust tveir, 23 og 24 cm, suðvestur af Reykjanesi árið 2006.

Lífshættir: Lítið er vitað um lífshætti litla lúsífers nema að hann er miðsævis-, botn- og djúpfiskur sem veiðst hefur á 365-1025 m dýpi hér á norðurslóð en á 300-1200 m dýpi annars staðar.

 

 

Byggt á bókinni, Íslenskir fiskar. ( Mál og menning 2013), Höfundar: Gunnar Jónsson og Jónbjörn Pálsson. (2013).

Did you find the content of this page helpful?