Litli langhali

extrasDictionaryLang extrasDictionarySynonyms
Latin: Nezumia aequalis
Danish: Glat skolæst
Faroese: Slætta langasporl
Norwegian: Høyrygget skolest
Plish: Bulawik modry
English: Common Atlantic grenadier
Russian: Незумия / Nezúmija

Litli langhali langvaxinn fiskur og þunnvaxinn aftan raufar. Bolur er allmikill en kroppur fer mjókkandi frá rauf og aftur eftir. Haus er lítill og trjóna hvöss og mjó. Kjaftur er smár og tennur í breiðum röðum á miðskolti og neðri skolti. Hökuþráður er lítill. Fremri bakuggi er hár og er annar geisli hans tenntur að framan. Aftari bakuggi er langur og lágur og rennur saman við raufarugga við sporðblöðkulausan stirtluendann. Raufaruggi nær lengra fram en aftari bakuggi. Eyr- og kviðuggar eru fremur smáir. Á milli kviðugga er hreisturlaus blettur í tengslum við ljósfæri. Rauf er um miðja vegu á milli kviðugga og raufarugga.

Útlit getur verið nokkuð breytilegt eftir kynjum og kemur það einkum fram í fjölda uggageisla, trjónulengd, bili milli augna, hæð og lengd eyr- og kviðugga.

Litli Ianghali verður allt að 36 cm.

Litur: Litli langhali er blásvartur til fjólublár og haus svartleitur. Oftast er silfurblær á neðanverðum bol og stirtlu. Litur í kringum rauf er svartleitur. Fremri bakuggi er svartur í oddinn.

Geislar: B1: 11-15 (oftast 12-13); E: 15- 23 (oftast 19-21),- K: (7)8-9,- gelgjur: 7.

Heimkynni litla langhala í norðaustanverðu Atlantshafi eru frá Íslandsmiðum meðfram landgrunnshallanum til Færeyja og þaðan áfram vestur fyrir Bretlandseyjar og allt til Asóreyja, Madeira, Marokkós og inn í Miðjarðarhaf. Þá finnst hann suður til Angóla í Afríku. Hefur fundist einu sinni undan Suðaustur- Grænlandi. Í vestanverðu Atlantshafi er hann í Mexíkóflóa samkvæmt sumum heimildum. Á djúpslóð suðvestan Grænlands, austan Kanada og Bandaríkjanna suður til Vestur-Indía er önnur tegund sömu ættkvíslar, N. bairii.

Á Íslandsmiðum veiddist einn í apríl 1964 á 700-750 m dýpi sunnan Vestmannaeyja (63°03'N, 20°30'V). Síðan hefur hann veiðst á djúpmiðum suðaustan-, sunnan-, suðvestan- og vestanlands.

Lífshættir: Botn-, miðsævis- og djúpfiskur sem veiðst hefur á 200-2300 m dýpi.

Fæða er ýmis smákrabbadýr og burstaormar.

 

Byggt á bókinni, Íslenskir fiskar. ( Mál og menning 2013), Höfundar: Gunnar Jónsson og Jónbjörn Pálsson. (2013).

Did you find the content of this page helpful?