Litli földungur

extrasDictionaryLang extrasDictionarySynonyms
Latin: Alepisaurus brevirostris
Danish: kortsnudet skalpelfisk
English: Shortnose lancetfish
Russian: Алепизавр короткокрылый / Alepizávr korotkorýlyj

Litli földungur er mjög langvaxinn og grannvaxinn fiskur. Mesta hæð er á mótum hauss og bols. Haus er frekar stuttur, augu stór og kjaftur vígalegur með hvössum vígtönnum. Á aftanverðum bol og stirtlu er svartur hliðarkjölur. Bakuggi er mjög stór og hár, bogadreginn og hæstur um eða rétt aftan við miðju. Hann nær fram fyrir fremri rætur eyrugga. Raufaruggi er frekar lítill og fremri rætur hans eru undir aftari rótum bakugga. Aftan við bakugga og andspænis aftanverðum raufarugga er veiðiuggi. Eyruggar eru stórir og rætur þeirra eru aftan við fremri rætur bakugga. Kviðuggar eru frekar litlir og eru rétt framan við miðjan fisk. Sporður er stór og djúpsýldur. Litli földungur getur orðið um 100 cm eða lengri að stærð. Í september árið 1992 veiddist einn 100 cm langur suðvestur af Surtsey.

Litur er dökkgrár eða blágrár með slikju. Uggar eru dökkbrúnir eða svartir og eftir endilöngum bakugga er röð hvítra depla.

Geislar: B: 36-48, R: 13-18.

Heimkynni litla földungs eru m.a. i Norður-Atlantshafi og hefur hann fundist á Flæmingjagrunni við Nýfundnaland, við Vestur-Grænland og í Grænlandshafi djúpt suðaustur af Hvarfi, svo og á Íslandsmiðum. Einnig við Asóreyjar. Þá finnst hann einnig í Suður-Kyrrahafi.

Fyrsti fiskur þessarar tegundar sem fannst á Íslandsmiðum veiddist suður af Surtsey sumarið 1992. Á árunum 1994-2002 bættust 11 við, þar af einn utan 200 sjómílna fiskveiðilögsögunnar og þrír rétt við mörkin. Fiskar þessir voru um 60 til rúmlega 100 cm langir og veiddust flestir í floteða botnvörpur á 510-730 m dýpi frá Reykjaneshrygg norður á grálúðuslóð vestan Víkurás. Einn fannst í maga túnfisks sem veiddist djúpt suður af Selvogsbanka.

Lífshættir: Litli földungur er miðsævis-, djúp- og úthafsfiskur. Fæða hans er alls konar fiskar, smokkfiskur, krabbadýr o.fl.

 

 

Byggt á bókinni, Íslenskir fiskar. ( Mál og menning 2013), Höfundar: Gunnar Jónsson og Jónbjörn Pálsson. (2013).

 

 

Did you find the content of this page helpful?