Litli flóki

extrasDictionaryLang extrasDictionarySynonyms
Latin: Zeugopterus norvegicus
Danish: småhvarre
Faroese: norskakvoysa
Norwegian: småvar
Swedish: småvar
English: Norwegian topknot
German: Zwergbutt
French: phrynorhombe de Norvège
Portuguese: bruxa-norueguesa
Russian: Карликовый ромб / Kárlikovyj romb, Норвежская карликовая камбала / Norvézhskaja kárlikovaja kámbala

Þessi minnsti flatfiskur Íslandsmiða og reyndar í Evrópu er nokkuð hár (breiður). Hæðin er um þriðjungur lengdarinnar. Hann er hauslítill, trjónustuttur, kjaftlítill og næstum jafnskolta. Augu eru stór og á vinstri hliðinni. Þau liggja þétt saman. Bakuggi byrjar á móts við fremri jaðar hægra auga. Kviðuggar eru ekki samvaxnir raufarugga. Hreistur er hrjúft bæði á ljósu og dökku hliðinni. Það er smærra á ljósu hliðinni. Rák er greinileg og myndar sveig yfir eyruggum. Litli flóki nær 10-12 cm lengd.

Litur er mógulur eða gulbrúnn á vinstri hlið með dökkbrúnum þverblettum en hægri hlið er ljós eða hvít.

Geislar: B: 74-84,- R: 58-68,- hryggjarliðir: 34-35.

Heimkynni litla flóka eru við Ísland, Færeyjar, Noreg, vestanverða Danmörku, Bretlandseyjar, í Ermarsundi og norðanverðum Biskajaflóa. Hér fannst hann fyrst í Faxaflóa árið 1924 en svifseiði höfðu reyndar fundist árið 1903. Hann er sjaldséður vegna smæðar sinnar en sennilega er dálítið um hann í hlýja sjónum suðvestan- og sunnanlands þótt ekki verði hans mikið vart og einnig hefur hann veiðst undan Vesturlandi, á Vestfjarðamiðum og undan vestanverðu Norðurlandi. Á síðasta áratug 20. aldar veiddust a.m.k. fjórir, einn í mars árið 1993 í botnvörpu á 160—170 m dýpi á Barðagrunni (66°20'N, 25°20'V), annar, 10 cm langur, í apríl 1994 í kúfiskplóg á 40—50 m dýpi út af Grundarfirði, sá þriðji í rækjuvörpu á 55-80 m dýpi í septemberlok í Steingrímsfirði og sá fjórði, 10 cm langur, í rækjuvörpu á 60—90 m dýpi í Hrútafjarðarál (65°34'N, 21°07'V) í september árið 1999.

Lífshættir: Litli flóki er botnfiskur sem lifir á 10—200 m dýpi á grýttum botni.

Fæða er einkum burstaormar, smá- krabbadýr og fiskseiði.

Hrygning fer fram í apríl til júlí í nágrannalöndum okkar en hér sennilega að sumarlagi því hrygnur komnar fast að hrygningu hafa fundist í júní og júlí. Svifseiði hafa sést í júlí og ágúst við Vestmannaeyjar og við Vestur- og Norðurland. Í ágústmánuði árið 1987 fundust tvö seiði, 4-6 mm löng, í Ísafjarðardjúpi. Egg eru sviflæg, 0,7-0,8 mm í þvermál og klekjast á viku. Seiði hverfa til botns 10-13 mm löng.

 

 

 

Byggt á bókinni, Íslenskir fiskar. ( Mál og menning 2013), Höfundar: Gunnar Jónsson og Jónbjörn Pálsson. (2013).

Did you find the content of this page helpful?