Litla brosma

extrasDictionaryLang extrasDictionarySynonyms
Latin: Phycis blennoides
Danish: skælbrosme
Faroese: lítla brosma
Norwegian: skjellbrosme
Swedish: fjällbrosme
English: forkbeard, greater forkbeard
German: Gabeldorsch
French: moustelle blanche, petit lingue, phycis de fond
Spanish: brótola, brótola de fango
Portuguese: abrótea-do-alto, ricardo
Russian: Большеглазый нитепёрый налим / Bol'sheglázyj nitepjóryj nalím

Litla brosma er allhávaxinn fiskur og þunnvaxinn aftan til. Haus er frekar lítill, augu í meðallagi, kjaftur nokkuð stór, tennur smáar og í breiðum. Hökuþráður er vel þroskaður. Bolur er styttri en stirtlan sem mjókkar mjög aftur. Bakuggar eru tveir og sá fremri mjög stuttur, þríhyrndur og teygist upp í örmjóan þráð. Aftari bakuggi er mjög langur og lægstur um miðjuna. Raufaruggi líkist honum en er styttri og lægri. Sporður er lítill og bogadreginn fyrir endann. Eyruggar eru frekar litlir en kviðuggar mjög langir, ná vel aftur fyrir eyrugga og allt aftur að raufarugga eða lengra og klofna í tvo anga. Hreistur er stórt og laust. Rák er greinileg og sveigist niður aftan við eyrugga.

Litla brosma getur orðið 110 cm á lengd.

Litur er rauðgrár en ljósari að neðan. Kviðuggar eru rauðir, stöku uggarnir dökkir í jaðarinn. Kjaftur er svarblár að innan.

Geislar: B1: 8-11,- B2: 54-64,- R: 50-58,- hryggjarliðir: 49-50.

Heimkynni litlu brosmu eru í Miðjarðarhafi og norðaustanverðu-Atlantshafi frá Afríku norðvestanverðri, meðfram ströndum Spánar og Portúgals inn í Biskajaflóa og vestur fyrir Bretlandseyjar, inn í norðanverðan Norðursjó, Skagerak, Kattegat, til Norður- Noregs, Færeyja og norður til Íslandsmiða.

Við Ísland fannst litla brosma fyrst árið 1903 á 220 m dýpi í Háfadjúpi. Síðan hefur hún veiðst alloft og sennilega er hún nokkuð algeng á djúpmiðum suðaustan-, sunnan- og suðvestanlands. Í febrúar árið 2003 veiddist ein 60 cm löng í net á 220—310 m dýpi við Grímsey (66°39'N, 17°54'V). Þetta mun vera nyrsti fundur til þessa en ekki er vitað til þess að hún hafi áður veiðst undan Norðurlandi. Í október árið 1996 veiddist 65 cm löng litla brosma í net á 55-73 m dýpi við Norðfjarðarhorn og í október árið 2000 veiddist ein í botnvörpu á 1020-1075 m dýpi djúpt vestur af Snæfellsnesi (64°42'N, 28°00'V). Það gætu verið norðvesturmörk útbreiðslusvæðis hennar.

Lífshættir: Litla brosma er botnfiskur á leirbotni. Hún hefur veiðst á 10-1000 m dýpi en er algengust á 150-450 m.

Fæða er einkum krabbadýr (humar) og ýmsir fiskar.

Ekkert er vitað um hrygningu hér við land en við Bretlandseyjar hrygnir litla brosma að vori eða snemma sumars og í Miðjarðarhafi í janúar til maí. Vöxtur er hægur og vaxa hrygnur hraðar en hængar. Hún getur náð 20 ára aldri.

Nytjar: Nytsemi er lítil. Dálítið veiðist þó sunnar í álfunni af litlu brosmu í botnvörpu, á línu, í net og á handfæri þó lítið sé veitt af henni hér við land. Hún kemur á markað ný eða flökuð auk þess sem eitthvað fer í mjölvinnslu. Aðalveiðiþjóðir eru Spánverjar og Frakkar og veiðisvæðin í Atlantshafi vestan Spánar og Frakklands og í Miðjarðarhafi.



Byggt á bókinni, Íslenskir fiskar. ( Mál og menning 2013), Höfundar: Gunnar Jónsson og Jónbjörn Pálsson. (2013).

Did you find the content of this page helpful?