Langlúra

extrasDictionaryLang extrasDictionarySynonyms
Latin: Glyptocephalus cynoglossus
Danish: skærising
Faroese: lálla
Norwegian: hundetunge, mareflyndre, sjøtunge, smørflyndre
Swedish: rödtunge
English: gray sole, pole dab, witch, witch flounder
German: Hundszunge, Rotzunge
French: plie cynoglosse, plie grise
Spanish: mendo
Portuguese: solhão
Russian: Камбала длинная атлантическая / Kámbala dlínnaja atlantítsjeskaja

Langlúra er langvaxin, þunn og hálfgegnsæ.

Haus er lítill, einnig kjaftur og tennur eru smáar, þéttstæðar og meitilyddar. Þær eru fleiri og stærri á blindu hliðinni. Augu eru allstór og lengri en trjónan. Bakuggi byrjar á móts við mitt vinstra auga sem er aftar en hægra auga. Kviðuggar eru litlir og sporður er bogadreginn fyrir endann. Hreistur er smátt. Rák er bein nema hvað hún sveigist örlítið ofan við eyrugga. Langlúra hefur mælst lengst 66 cm hér við land (Hornafjarðardjúp, mars 1996) en 78 cm við Kanada.

Litur: Langlúra er dökk eða rauðgrá til rauðbrún á hægri hlið en ljós eða hvít á þeirri vinstri og með þéttum svörtum dílum.

Geislar: B, 95-120; R, 85-102; hryggjarliðir: 57.

Heimkynni langlúru eru í Norður-Atlantshafi frá Múrmansk að norðan og austan suður með strönd Noregs inn í Kattegat og dönsku sundin, í Norðursjó, umhverfis Bretlandseyjar og suður í Biskajaflóa. Hún er við Færeyjar og Ísland. Einnig er hún við Suðaustur- og Suðvestur-Grænland og Norður- Ameríku frá Labrador suður til Þorskhöfða í Bandaríkjunum.

Fyrstur til að lýsa langlúru við Ísland var náttúrufræðingurinn og skáldið Jónas Hallgrímsson en hún var annars lítt þekkt hér þar til botnvörpuveiðar hófust við Ísland um 1900. Hún er allt í kringum landið, einkum við það sunnan- og vestanvert frá Hornafjarðardjúpi til Faxaflóa en er mun sjaldséðari í kalda sjónum norðanlands og austan. Í janúar eða febrúar árið 1980 veiddist 13 cm langlúra í Öxarfirði og þótti fréttnæmt.

Lífshættir: Langlúra er botnfiskur og hefur veiðst á 25-500 m dýpi við Ísland en annars staðar allt niður á 1500 m dýpi. Hún er algengust á 50-300 m dýpi og á leir- og sandbotni. Hún heldur sig við -1 til 10°C sjávarhita.

Fæða er einkum burstaormar, smákrabbadýr, smáskeldýr og slöngustjörnur. Einnig étur hún sandsíli og mjóna.

Hrygning fer fram við suður- og suðvesturströndina og einkum í apríl til júní. Þekktar eru hrygningarstöðvar í Meðallandsbug, Háfadjúpi, við Surtsey, undan Krísuvíkurbergi, á Eldeyjarbanka og í Jökuldjúpi. Egg eru smá, 1-1,25 mm í þvermál, sviflæg og klekjast þau út á 8 dögum við 8-10°C. Seiði eru 4-5 mm löng við klak og halda sig í svifinu þar til þau eru 4—5 cm löng en þá er myndbreytingu lokið og þau búin að fá á sig mynd foreldra sinna og hefja botnlífið.

Langlúran verður kynþroska 3—7 ára og hængarnir yngri en hrygnurnar. Um helmingur hænga er orðinn kynþroska við 4 ára aldur en helmingur hrygna við 6 ára aldur.

Vöxtur er hægur og vaxa hrygnur hraðar en hængar. Við Ísland nær langlúran allt að 14 ára aldri en við Bretlandseyjar verður hún 8-10 ára.

 

Nytjar: Langlúra er eftirsóttur matfiskur víða í útlöndum en er lítið étin hér. Hún hefur veiðst sem aukaafli frá upphafi botnvörpuveiða hér við land. Árið 1986 hófust tilraunaveiðar á langlúru með dragnót á Íslandsmiðum. Aflinn komst í 335 tonn. Næsta ár varð aflinn tæp 4.600 tonn og urðu Íslendingar mesta langlúruveiðiþjóð í Evrópu það árið en næsta ár hrapaði aflinn niður í tæp þrjú þúsund tonn en síðan hefur ársaflinn verið á bilinu 1000-2000 tonn.

 

 

Byggt á bókinni, Íslenskir fiskar. ( Mál og menning 2013), Höfundar: Gunnar Jónsson og Jónbjörn Pálsson. (2013).

Did you find the content of this page helpful?