Krákur

extrasDictionaryLang extrasDictionarySynonyms
Latin: Lepidocybium flavobrunneum
English: Escolar
French: Escolier noir
Spanish: Escolar negro

Nokkuð sívalur fiskur, hæstur um miðjuna en mjókkar til beggja enda. Næstum jafnskolta, neðri skoltur þó aðeins lengri en sá efri. Engin brjósktota á neðra skolti. Í efra skolti eru tvö pör vígtanna. Plógbein er tennt. Engir hvassir gaddar framan við raufarugga. Á spyrðustæði eru 4-6 smáuggar að neðan og ofan, þar er einnig einn hliðarkjölur hvorum megin og ofan og neðan þeirra aðrir minni. Hreistur er smátt og rákin mjög hlykkjótt. Krákur getur náð um 2 m lengd.

Litur er grábrúnn og verður næstum svartur með aldrinum.

Geislar: B: VIH-lX+l+15-16+4-6; R: 1+12-14+4-5,E: 15-16,K:1+5.

Lífshættir: Krákur er hraðsyndur úthafs- og landgrunnshallafiskur sem heldur sig á 600-1000 m dýpi á daginn, en á 100-200 m dýpi og jafnvel grynnra á nóttinni. Á flotlínu hefur hann veiðst frá yfirborði og niður á 400 m dýpi. Fæða er fiskar, smokkfiskar og krabbadýr.

Heimkynni: Tegundin hefur alheimsútbreiðslu í heitum og heittempruðum höfum. Í austanverðu Atlantshafi hefur hún fundist við Madeira, Asoreyjar, Kanaríeyjar og Góðrarvonarhöfða og stöku sinnum djúpt undan Frakklandsströndum, og einu sinni á Íslandsmiðum. Í vestanverðu Atlantshafi finnst hún undan Nýja-Skotlandi og Georgsbanka, í Mexíkóflóa, Karíbahafi og áfram suður til Brasilíu og Úrúgvæ. Einnig er hún í Indlandshafi og Kyrrahafi. Hér við land veiddist einn krákur í september 2012 á Sneiðinni suður af Vestmannaeyjum (63°02' N, 20°07' V). Hann var 67 cm langur og 2,5 kg á þyngd.

Nytjar: Engin bein sókn er í krák og hann var mjög fáséð tegund þar til farið var að stunda flotlínuveiðar á meira en 200 m dýpi. Hann veiðist nú sem meðafli við túnfisk- og sverðfiskveiðar og er nýttur til manneldis. Krákur þykir bragðgóður en ekki er gott að éta mikið af honum í einu. Stafar það af því að tegundin getur ekki melt þá fitu-(vax-)estera sem eru í náttúrulegu fæði hans en þeim safnar hann í holdið. Af þessu leiðir að fituinnihald holdsins er 14-25%. Melting mannsins ræður einungis við takmarkað magn af þessari fitu, þannig að sá sem neytir stórra skammta verður fyrir þeim óþægindum að olíuleki gengur niður af honum. Af þessum sökum er sala kráks sums staðar bönnuð, en annars staðar eru neytendur varaðir við of mikilli græðgi.

 

 

Byggt á bókinni, Íslenskir fiskar. ( Mál og menning 2013), Höfundar: Gunnar Jónsson og Jónbjörn Pálsson. (2013).

 

Did you find the content of this page helpful?