Krækill

extrasDictionaryLang extrasDictionarySynonyms
Latin: Artediellus atlanticus
Danish: Atlantisk halvulk
Faroese: krokilskrutt
Norwegian: krokulke
Swedish: halvulk
English: Atlantic hookear sculpin
German: Atlantische Hakengroppe
French: hameçon atlantique
Russian: Крючкорог атлантический / Krjutsjkoróg atlantítsjeskij

Krækill er hausstór fiskur og nokkuð gildvaxinn að framan, sívalur og afturmjókkandi. Spyrðustæði er mjög grannt. Kjaftur er í meðallagi stór og granir þykkar. Tennur eru mjög smáar og þéttstæðar í breiðum á skoltum, plógbeini og gómbeinum. Augu eru frekar stór. Tálknalok eru broddalaus eða með einn veikbyggðan gadd en á vangabeinum eru tveir gaddar og er sá efri hvass og beygist upp á við í krók. Bolur er stuttur og sívalur, stirtlan er lengri en bolurinn og þunnvaxin. Bakuggar eru tveir og samvaxnir og er sá aftari lengri. Raufaruggi er andspænis aftari bakugga og álíka langur en lægri. Sporður er stór. Eyruggar eru breiðir og langir, ná aftur á móts við raufarugga. Kviðuggar eru langir og grannir. Roð er hreisturlaust, slétt og hnökralaust. Rák er greinileg. Krækill getur orðið um I 5 cm a lengd. Hængar verða stærri en hrygnur.

Litur er dálítið breytilegur, ýmist hvítleitur eða dökkgrár, með þremur brúnleitum þverrákum og auk þess eru brúnar þverrákir á eyruggum og stöku uggunum.

Geislar: B1: VIl-VIII,- B2: 12-16; R: 11- 12(13); E: 19-24; K, 1 + 3; hryggjarliðir: 29-32.

Heimkynni krækils eru í norðaustanverðu Atlantshafi við vestan- og norðvestanverðar Bretlandseyjar og Noreg og norður í Barentshaf til Svalbarða, við Færeyjar, Ísland og Austur-Grænland. Í norðvestanverðu Atlantshafi er hann við Vestur-Grænland og strendur Ameríku frá Baffinslandi suður til Þorskhöfða (Cape Cod) í Bandaríkjunum.

Hér við land er krækill einkum í kalda sjónum frá norðvesturmiðum og austur með Norðurlandi til djúpmiða austanlands, þar sem sums staðar er mjög mikið um hann.

Lífshættir: Krækill er botnfiskur sem lifir á leir- og sandbotni og hefur fundist á 35-900 m dýpi. Enda þótt hann hafi veiðst á og um 100 m dýpi (í Húnaflóa og Skagafirði) þá er hann mun algengari á 300-500 m dýpi. Hann veiðist m.a. alloft í rækjuvörpu í kalda sjónum.

Fæða er burstaormar, smákrabbadýr og lindýr.

Hrygna með þroskuðum hrognum hefur fengist seint í maí á 280 m dýpi út af Vopnafirði og svifseiða hefur orðið vart í kalda sjónum. Við Noreg hrygnir hann í ágúst til september, 60-120 eggjum sem eru 4 mm í þvermál. Í Kanada hrygnir hann í maí til nóvember.

 

 

Byggt á bókinni, Íslenskir fiskar. ( Mál og menning 2013), Höfundar: Gunnar Jónsson og Jónbjörn Pálsson. (2013).

Did you find the content of this page helpful?