Kolbíldur

extrasDictionaryLang extrasDictionarySynonyms
Latin: Malacosteus niger
Danish: smalkæbefisk
Faroese: Leysikjaftur
English: Lightless loosejaw, loosjaw
French: drague à godet, drague sans lampe
Russian: Malakóst tsjórnyj

Kolbíldur er þunnvaxinn og grannvaxinn fiskur. Haus með kjálkum er mjög stór því að kjálkarnir eru mjög langir, miklu lengri en hauskúpan og getur fiskurinn þanið kjaftinn mjög mikið út. Trjónan er hins vegar mjög stutt, styttri en hálft þvermál augna og bogadregin. Augu eru stór og er bil á milli þeirra meira en þvermálið. Nasaop er eitt hvorum megin og í djúpri gróf rétt framan við augu. Á miðskoltsbeini eru 21-28 smáar tennur í tveimur röðum fremst en einni aftast. Í neðri skolti eru 27—28 tennur venjulega í fimm tannhópum með smáum tönnum á milli. Engar tennur eru á plógbeini né á gómbeinum. Bak- og raufaruggi eru aftarlega og andspænis hvor öðrum. Uggarætur eru þykkar og eru uggageislar næstum alveg huldir þykku roði svo aðeins bláoddurinn stendur upp úr. Spyrðustæði er mjög grannt, sporður lítill og sýldur. Eyruggar eru litlir en kviðuggar lengri og liggja aftan við miðju. Enginn hökuþráður og ekkert hreistur.

Fjöldi smárra ljósfæra er á víð og dreif um allan fiskinn nema uggana og sum þeirra illgreinanleg. Rétt neðan við augu er stórt kommulaga dökkrautt ljósfæri sem mjókkar fram. Aftan við það er lítið og nærri kringlótt ljósgrænt ljósfæri. Kviðlæg röð ógreinilegra ljósfæra er frá því fyrir framan lífodda og aftur að sporði. Litur ljósfæra annarra en þeirra sem getið hefur verið er fjólublár eða hvítur á nýveiddum fiskum en verður gulleitur við geymslu. Kolbíldur verður um 24 cm á lengd.

Litur: Kolbíldur er svartur á lit.

Geislar: B: 16-21,- R: 17-23.

Heimkynni kolbílds eru í öllum hlýjum, heit- og kaldtempruðum hlutum heimshafanna. Í Atlantshafi er hann allt frá Grænlands- og Íslandsmiðum og suður að Góðrarvonarhöfða að austan og að vestan frá Nuuk í Grænlandi suður til Mexíkóflóa og Karíbahafs. Hann hefur ekki fundist ennþá í Miðjarðarhafi né á milli Íslands og Noregs.

Á Íslandsmiðum veiddist hann fyrst í júní lok árið 1954 á hryggnum milli Íslands og Færeyja (63°20-50'N og 11-12°V). Sá fiskur var 17 cm langur. Síðan hefur hann veiðst alloft á 560-1400 m dýpi frá Rósagarði og Þórsbanka suður fyrir land og vestur og norður á grálúðuslóð vestan Víkuráls.

Lífshættir: Kolbíldur er miðsævis-, djúp- og botnfiskur sem heldur sig oftast dýpra en 500 m. Hann hefur veiðst allt niður á 2500 m dýpi í heimshöfunum.

Fæða er sennilega miðsævisfiskar og krabbadýr.

 

 

Byggt á bókinni, Íslenskir fiskar. ( Mál og menning 2013), Höfundar: Gunnar Jónsson og Jónbjörn Pálsson. (2013).

Did you find the content of this page helpful?