klóþang

extrasDictionaryLang extrasDictionarySynonyms
Latin: Ascophyllum nodosum
English: egg wrack, sea whistle, asco, knobbed wrack, knotted wrack, yellow tang

Klóþang er að stofni til kvíslgreint, sem sést vel ef maður skoðar endagreinarnar, en vegna hliðarsprota sem vaxa út úr stofninum virðist plantan fljótt á litið óreglulega greinótt. Greinarnar eru flatvaxnar. Loftfylltar bólur eru með mismiklu millibili á greinunum. Bólurnar eru venjulega þéttastar nálægt endum greinanna en gisnari eftir því sem neðar dregur. Á hverju ári myndast ein ný loftbóla rétt neðan við enda greinanna. Greinar klóþangs verða um einn cm á breidd og plantan sjálf er oftast 0,5 til einn metri á lengd en getur orðið allt að tveimur metrum. Á vorin vaxa litlir uppblásnir belgir út úr hliðum greinanna. Það eru æxlunarfærin sem detta af þegar plantan æxlast um sumarið.

Klóþang er oftast gulbrúnt á að líta, þar sem það liggur í fjörunni, en ef því er velt við sést að neðstu hlutar þess, sem eru í skugga, eru ólífugrænir. Talið er að klóþang geti orðið meira en 100 ára gamalt.

Klóþang vex umhverfis allt Ísland og er líklega sú tegund lífvera sem mest er af í fjörum hér við land. Klóþang vex aðallega í fremur skjólsælum grjót- og klapparfjörum en finnst þó einnig í brimasömum fjörum.

Æxlun klóþangsins fer þannig fram að á vorin vaxa æxlunarsprotar út úr hliðum greinanna. Þeir belgjast út og verða holir að innan og eru þá kallaðir kynbeð. Í kynbeðunum myndast ýmist egg eða frjó, eftir því hvort um er að ræða karl- eða kvenplöntu. Egg og frjó eru fullþroska í maí eða júní og losna þá úr kynbeðunum og sameinast í sjónum. Eftir frjóvgun sekkur eggið til botns þar sem það spírar og vex upp í nýja klóþangsplöntu.

Margar tegundir þörunga og dýra festa sig á klóþangið og nefnast ásætur. Flestar þessara tegunda má einnig finna á öðrum þörungum eða á botninum. Ein tegund, þangskeggið (Polysiphonia lanosa), sem er rauðþörungur, vex þó eingöngu á klóþangi og er jafnframt sú tegund sem að öllu jöfnu er mest af á klóþanginu.

Á Reykhólum í Breiðafirði er framleitt klóþangsmjöl. Það fæst úr klóþangi sem aflað er með þangskurðarprömmum víða á Breiðafirði. Erlendis er mjölið aðallega notað til framleiðslu á gúmmíefninu algíni, sem meðal annars er notað í ýmiss konar matvælaframleiðslu. Aðeins lítill hluti framleiðslunnar er notaður innanlands sem fóðurbætir og til framleiðslu á áburði.

 

Did you find the content of this page helpful?