Klettadoppa

extrasDictionaryLang extrasDictionarySynonyms
Latin: Littorina saxatilis
Danish: ungefødende strandsnegl
Norwegian: steinsnegl
English: rough periwinkle

Klettadoppa er lítill kuðungur, oftast 15 til 20 mm að lengd. Vindingarnir er fjórir til fimm, kúptir og ganga út í odd. Neðsti vindingurinn er miklu meira en helmingur af hæð kuðungsins. Skelin er ýmist slétt eða með smágerðum gárum langsum með vindingunum. Munnopið er nokkurn veginn hringlaga og er skelin greinilega þykkari við munnopið en annars staðar. Lokan sem lokar munnopinu þegar dýrið dregur sig inn í skelina, er hringlaga og brún á lit. Klettadoppa getur verið nokkuð breytileg að lögun. Klettadoppan andar með lungum.

Liturinn er mjög breytilegur, oftast er hún einlit grá, en getur verið hvít, grá, rauðleit, grænleit eða jafnvel gul. Hefur oft ljósar og dökkar litarrendur langsum eftir vindingunum. Munnurinn er mun dekkri en ytra borð kuðungsins.

Önnur tegund kuðunga, þangdoppa, sem einnig lifir í fjörum getur líkst klettadoppu fljótt á litið. Hún þekkist frá klettadoppunni á því að hana vantar trjónu. Efri vindingar kuðungsins ná lítið eða ekkert upp fyrir neðsta vindinginn. Þangdoppan lifir neðar í fjörunni, innan um þang.

Klettadoppan lifir efst í fjörunni, ofan við þangið. Hún heldur sig gjarnan meðfram sprungum þar sem raki situr eftir um fjöruna. Klettadoppan þolir vel að vera á þurru þegar smástreymt er svo dögum eða jafnvel vikum skiptir.

Klettadoppan lifir á smáum þörungum sem mynda þunnt lag á steinum efst í fjörunni og virðist einnig geta étið skófir sem víða þekja steina efst í fjörunni. Hún skrapar þörungana af steinunum með svokallaðri skráptungu sem er alsett hörðum tönnum.

Eftir æxlun þroskast fóstur klettadoppunar í móðurinni þar til unginn fæðist sem fullskapaður kuðungur. Á vorin elur klettadoppan lifandi unga sem hafa skel frá fæðingu og eru eins í útliti og foreldrarnir. Þeir eru þó örsmáir þegar þeir fæðast.

 

Did you find the content of this page helpful?