Kistufiskur

extrasDictionaryLang extrasDictionarySynonyms
Latin: Scopelogadus beanii
Danish: Beans kogleskælfisk
English: Bean´s bigscale
French: heaume à nez carré

Kistufiskur er smávaxinn, stuttvaxinn og frekar þykkvaxinn fiskur. Haus er stór — um þriðjungur lengdar að sporði og kubbslegur að framan. Augu eru stór en kjaftur smár. Stirtla er frekar löng og sver. Bakuggi er einn og andspænis honum er raufaruggi sem byrjar á móts við miðjan bakugga og nær viðlíka langt aftur eða aðeins aftar. Eyruggar eru langir og byrja framan við bakugga. Rætur kviðugga eru framan við eyruggarætur. Sporður er allstór en fiskurinn getur orðið um 13 cm á lengd að sporði.

Litur er brúnn.

Geislar: B: 11+10-11; R: 1 + 7-9; hryggjar- liðir: 25-27.

Heimkynni kistufisks eru í Atlantshafi, sunnanverðu Indlandshafi og vestanverðu Suður-Kyrrahafi. Í Norðaustur-Atlantshafi hefur hans m.a. orðið vart við Írland, Grænland og hér við land.

Hér fannst kistufiskur í september árið 1973 á 800 m dýpi djúpt undan Suðvesturlandi (63°44'N, 27°44'V). Þá fékkst einn í apríl 1977 á 650—700 m dýpi suðvestur af landinu (61°52'N, 27°37'V). Árið 1984, sennilega síðsumar, munu tveir kistufiskar hafa veiðst, sennilega djúpt undan Suður- eða Suðausturlandi og í maí árið 1985 veiddist einn, 6 cm langur, á 604—695 m dýpi á Þórsbanka undan Suðausturlandi. Síðan varð nokkurt hlé en árin 1994—1998 veiddust árlega einn eða fleiri, 6—13 cm langir, í botn- og flotvörpu á 300—1000 m dýpi frá utanverðu Háfadjúpi vestur og norður á grálúðuslóð vestan Víkuráls og suður eftir Reykjaneshrygg.

Lífshættir: Kistufiskur er miðsævisfiskur sem lifir einkum á 150—1100 m dýpi og dýpra. Í júlí árið 2001 veiddust tveir kistufiskar á 2000 m dýpi djúpt suður í hafi (56°38'N, 30°48'V). Fullorðnir fiskar halda sig mest á meira dýpi en 600 m. Um fæðu og hrygningu er lítið vitað.

 

 

Byggt á bókinni, Íslenskir fiskar. ( Mál og menning 2013), Höfundar: Gunnar Jónsson og Jónbjörn Pálsson. (2013).

 

Did you find the content of this page helpful?