keilubróðir

extrasDictionaryLang extrasDictionarySynonyms
Latin: Ciliata mustela
Danish: femtrådet havkvabbe
Faroese: hornabrosma
Norwegian: femtrådet tangbrosme
Swedish: femtömmad skärlånga
English: five-bearded rockling
German: Fünfbärtelige Seequappe
French: motelle à cinq barbillons
Spanish: madre de la anguila
Portuguese: laibeque-de-cinco-barbilhos
Russian: Пятиусый налим / Pjatiúsyj nalím

Keilubróðir er lítill fiskur, langvaxinn og sívalur um bol en þynnist aftur eftir. Haus er fremur lítill, sléttur og flatvaxinn. Trjóna er stutt, kjaftur lítill og tennur smáar. Á trjónu eru tvö pör af þráðum og eru þeir efri lengri. Á neðri skolti er hökuþráður. Augu eru smá. Bolur er í meðallagi, stirtla er löng og sterkleg. Fremri bakuggi er einn langur geisli fremst og síðan koma örsmáir geislar eins og bursti í gróf. Aftari bakuggi er langur og einnig raufaruggi sem er þó mun styttri en aftari bakuggi. Sporður er stór og bogadreginn fyrir endann. Eyruggar eru stórir og bogadregnir fyrir endann. Kviðuggar eru frekar litlir og fremsti geisli þeirra teygist út í stuttan anga. Hreistur er smátt og nær út á haus og ugga. Rákin er slitin og dauf. Fremri hluti hennar nær frá haus á móts við rauf en aftari hluti er á miðri hlið stirtlunnar. Keilubróðir getur náð um 45 cm lengd en verður sjaldan lengri en 25 cm.

Litur er breytilegur en oftast dökkbrúnn eða rauðbrúnn að ofan og á hliðum en Ijósari að neðan.

Geislar: B1: 1+n, B2: 45-56; R: 40-46,- hryggjarliðir: 46-48.

Heimkynni keilubróður eru í norðaustanverðu Atlantshafi frá Portúgal norður til Biskajaflóa, umhverfis Bretlandseyjar, í Norðursjó, Skagerak og Kattegat og norður með strönd Noregs, við Færeyjar og Ísland.

Hér við land er keilubróðir algengur í hlýja sjónum undan Suður- og Suðvesturlandi, einkum frá Vestmannaeyjum og inn í Faxaflóa.

Lífshættir: Keilubróðir er grunnfiskur á grýttum og þaravöxnum botni niður á um 20 m dýpi.

Fæða hans er einkum marfló, þanglús, burstaormar, fiskseiði og smáfiskar.

Hrygning fer fram á vorin. Egg eru sviflæg, 0,7-1,0 mm í þvermál. Seiði eru einnig sviflæg og leita botns þegar þau eru 4-5 cm löng.

 

Byggt á bókinni, Íslenskir fiskar. ( Mál og menning 2013), Höfundar: Gunnar Jónsson og Jónbjörn Pálsson. (2013).

 

Did you find the content of this page helpful?