Kambhríslungur

extrasDictionaryLang extrasDictionarySynonyms
Latin: Chirolophis ascanii
Danish: buskhoved
Faroese: fjadragrúkur
Norwegian: hornkvabbe
English: Yarrel's blenny
German: Stachelrücken-Schleimfisch
French: chirolophis
Russian: Европейская мохоголовая собачка / Jevropéjskaja mokhogolóvaja sobátsjka

Kambhríslungur er lítill, langvaxinn og þunnvaxinn fiskur. Mesta hæð er við fremri rætur bakugga. Haus er lítill, þunnvaxinn og ávalur að framan. Kjaftur er smár, skástæður og jafnskolta eða neðri skoltur aðeins lengri en sá efri. Granir eru þykkar. Tennur á skoltum eru smáar. Augu eru lítil og á hvorri augabrún eru tvær húðhríslur og framan við þær margir smá húðnabbar. Bakuggi er langur, byrjar yfir tálknaloki eða við afturenda þess og nær næstum aftur að sporðblöðku. Á gömlum hængum er húðtota sem kvíslast í endann fremst í bakugga. Fremstu bakuggageislar eru stinnir og hvassir. Raufaruggi er styttri en bakuggi. Sporðblaðka er greinilega aðskilin frá bak- og raufarugga og bogadregin fyrir endann. Eyruggar eru stórir en kviðuggar eru litlir og kverkstæðir. Hreistur er örsmatt og þekur allan fiskinn nema hausinn. Rák er ógreinileg. Kambhríslungur verður 25-30 cm a lengd.

Litur kambhríslungs er breytilegur, oft gulbrúnn eða mógulur að ofan, með dökkum þverröndum á hliðum en ljós að neðan.

Geislar: B: 50-54; R: 1 + 35-40,- hryggjarliðir: 55-58.

 

Heimkynni kambhríslungs eru við Bretlandseyjar, í Skagerak, Kattegat og Eyrarsundi. Hann er meðfram Noregi og allt norður undir Múrmansk, við Færeyjar og Ísland. Einnig hefur hann fundist í Norðvestur-Atlantshafi frá Baffinslandi norðan við Labrador og suður til Lárensflóa og Nýfundnalands.

Kambhríslungur fannst fyrst hér við land árið 1880 eða 1890 en þá fundust tveir, 9 og 10 cm langir, í maga þorsks sem veiddist undan Norðvesturlandi. Næst fengust þrír eða fjórir, 5-7 cm langir, úr maga þorsks sem veiddist á 60—75 m dýpi við Vestmannaeyjar. Í október árið 1981 veiddist 16 cm hrygna á 80-90 m dýpi í Jökulfjörðum við Ísafjarðardjúp. Í mars 1995 veiddust tveir kambhríslungar, 11 og 1 5 cm langir, á 80—85 m dýpi á Hornbanka (66°48'N, 11°27'V). Frá 1996 hafa 17 kambhríslungar veiðst undan Vestfjörðum og á Strandagrunni. Þeir voru 7—16 cm langir. Þá er vitað um svifseiði við Norðvestur- og Suðausturland í maí til júní og í júlí 1998 fengust tvö slík, annað á Húnaflóa (65°40'N, 21°32'V) og hitt undan Austfjörðum (65°15'N, 13°30'V).

Lífshættir: Kambhríslungur er botnfiskur á grýttum þarabotni og einkum á 60—175 m dýpi en finnst bæði grynnra og dýpra eða frá 10-280 m.

Fæða er ýmis smá krabbadýr, burstaormar og fleira.

Ekkert er vitað um hrygningu hér við land en hrygnan sem veiddist í Jökulfjörðum í október 1981 var að hrygningu komin og svifseiði, 10-20 mm löng, hafa fundist eins og fram kemur hér að ofan í maí til júlí undan Norðvestur-, Norður- og Austurlandi. Við Múrmansk hrygnir kambhríslungur í október til nóvember og svifseiði sjást þar í apríl til júní. Egg eru litlaus, 2,3-2,8 mm í þvermál og er hrygnt í kekki við botn og gætir hængurinn þeirra síðan þar til þau klekjast út.

 

 

Byggt á bókinni, Íslenskir fiskar. ( Mál og menning 2013), Höfundar: Gunnar Jónsson og Jónbjörn Pálsson. (2013).

Did you find the content of this page helpful?