Ísþorskur

extrasDictionaryLang extrasDictionarySynonyms
Latin: Arctogadus glacialis
Danish: Almindelig istorsk
Norwegian: Istorsk
English: Polar cod
French: Morue arctique

Ísþorskur er langvaxinn með allstóran haus og stór augu. Augun eru nærri jafnlöng trjónulengdinni. Skoltar eru jafnlangir eða sá neðri teygist aðeins lengra fram. Kjaftur er örlítið skásettur. Á gómbeinum eru sterklegar tennur. Hökuþráð vantar eða hann sést ekki. Bakuggarnir þrír og tveir raufaruggarnir eru allir stuttir og gott bil á milli þeirra. Eyr- og kviðuggar eru vel þroskaðir og eru kviðuggar framan við rætur eyrugga. Sporður er sýldur. Rák er allgreinileg, ósamfelld og liggur í sveig yfir eyruggum en er að öðru leyti bein frá öðrum bakugga og aftur á sporð.

Ísþorskur verður um 50 cm á lengd.

Litur: Ísþorskur er dökkleitur, svartbrúnn á baki og hliðum en kviður ljósari. Uggar eru svartir.

Geislar: Bl: 10-13,- B2: 16-21,- B3: 20-25; Rl: 19-24,- R2: 19-26,- hryggjarliðir: 58-61.

Heimkynni ísþorsks eru í Norður-íshafi norðan 70°N undan austurströnd Grænlands og við Vestur-Grænland. Þá er hann norðan Kanada og norðan austanverðrar Síberíu.

Í janúar 1995 veiddist 52 cm ísþorskur á 275 m dýpi á „Fætinum" svonefnda undan Suðausturlandi og er sá fyrsti sem hér veiðist. Í nóvember árið 1995 veiddist 33 cm ísþorskur í botnvörpu á 448 m dýpi út af Vestfjörðum (66°34'N, 25°12'V) og í mars árið 1999 veiddist einn 24 cm langur í botnvörpu á 256—300 m dýpi undan Suðausturlandi (64°47'N, 11°43'V). Í ágúst 2001 veiddist sá fjórði í rækjuvörpu á 448-494 m dýpi norðvestur af Hala (66°59'N, 24°15'V). Hann mældist 35 cm langur.

Lífshættir: Ísþorskur er uppsjávarfiskur sem heldur sig einkum á 10-25 m dýpi undir rekísnum í Norðurhöfum.

Fæða er mest ískóð, krabbaflær og fleira.

Ósaþorskur, Arctoýadus borosovi (Drjagin, 1932) sem getið var í fyrstu útgáfu bókarinnar Íslenskir fiskar (2006) er samkvæmt nýjustu rannsóknum sama tegund og ísþorskur.

 

Byggt á bókinni, Íslenskir fiskar. ( Mál og menning 2013), Höfundar: Gunnar Jónsson og Jónbjörn Pálsson. (2013).

Did you find the content of this page helpful?