pólþorskur (icelandic)

Ískóð

extrasDictionarySynonymsIcelandic:
pólþorskur
extrasDictionaryLang extrasDictionarySynonyms
Latin: Boreogadus saida
Danish: polartorsk
Faroese: polartoskur
Norwegian: polartorsk
Swedish: polartorsk
English: arctic cod, polar cod
German: Polardorsch
French: morue arctique, morue polaire, saida
Spanish: bacalao polar
Portuguese: bacalhau-polar
Russian: Сайка / Sájka, Полярная тресочка / Poljárnaja tresótsjka

Ískóð líkist þyrsklingi í vexti nema hvað stirtlan er mjórri og einkum er spyrðustæðið grannt. Hausinn er stór og bolur mjókkar aftur eftir. Augu eru stór. Tennur eru smáar og í einni röð á plógbeini og í neðri skolti en í tveimur röðum í fremri hluta efri skolts. Gómbein eru tannlaus. Á höku er stuttur skeggþráður. Bakuggarnir þrír eru vel aðgreindir og einnig raufaruggarnir tveir. Eyruggar eru allstórir og kviðuggar ná nokkuð langt aftur. Sporðblaðka er djúpsýld. Hreistur er mjög smátt og rák greinileg.

Ískóð nær 40 cm lengd, en lengsta ískóðið á Íslandsmiðum mældist 33 cm og veiddist vestan Kolbeinseyjar í mars 1995.

Litur: Ískóð er móleitt að ofan, silfurgljáandi að neðan og uggar allir blásvartir. Fjöldi dökkra bletta er á víð og dreif um fiskinn.

Geislar: B1: 11-16; B2, 12-17; B3, 16- 23; R1: 13-21; R2, 17-23; hryggjarliðir, 49-57.

Heimkynni ískóðs eru í Barentshafi að Síberíu og inn í Hvítahaf, við Ísland og austan og vestan Grænlands. Það er við Norður- Ameríku að Labrador og til Nýfundnalands (Stórabanka) að austan, í Hudsonflóa, og inn í Beringshaf að vestan.

Hér hefur ískóð fundist frá Bjargtöngum norður og austur um land að Ingólfshöfða en annars lifir það djúpt norður af landinu.

Lífshættir: Ískóðið er hánorræn tegund í ísköldum sjó og hefur það fundist nyrst á 84°42'N, þ.e. norðar en nokkur önnur fisktegund. Það hefur veiðst allt frá yfirborði og niður á um 730 metra dýpi og er oft syndandi innan um ísjakana í Norðurhöfum. Þá finnst það í ísöltum strandsjó og gengur jafnvel upp í árósa þó ekki gerist það hér.

Fæða ískóðs er aðallega ýmiss konar plöntu- og dýrasvif, þar á meðal rauðáta, smá botnkrabbadýr, fiskaegg, lirfur og seiði. Stórir fiskar éta smærri félaga sína.

Ískóðið er sjálft fæða alls konar dýra, t.d. lax, þorsks og grálúðu. Einnig éta hvalir, eins og mjaldur og náhvalur, mikið af ískóði, sem og selir og máfar.

Hrygning fer fram síðari hluta vetrar eða fyrri hluta sumars í köldum sjó (2-3°C). Nýklakin seiði hafa fundist í Húnaflóa í byrjun júlí. Þau þekkjast m.a. frá þorsk- og ufsaseiðum á því hve stóreygð þau eru og mjóslegin. Í Barentshafi er kynþroska náð fjögurra ára. Þar fer hrygning fram í janúar til febrúar eða fyrr. Egg eru stór, 1,6—1,8 mm í þvermál. Svifseiði eru orðin 5—9 mm löng í maí. Í Beauforthafi norðan Alaska og Kanada fer hrygning fram í nóvember og fram í febrúar.

Ískóð er mikilvægur hlekkur í fæðukeðju Norður-Íshafsins og í því liggur nytsemi tegundarinnar helst. Grænlendingar hafa þó veitt dálítið af því og einnig Rússar í Barentshafi.

 

 

Byggt á bókinni, Íslenskir fiskar. ( Mál og menning 2013), Höfundar: Gunnar Jónsson og Jónbjörn Pálsson. (2013).

 

Did you find the content of this page helpful?