Hringaháfur

extrasDictionaryLang extrasDictionarySynonyms
Latin: Galeus melastomus
Danish: Ringhaj
Faroese: kjaftsvarti hávur, ringhávur
Norwegian: hågjel, ringhai
Swedish: hågjel, ringhai
English: black-mouthed catshark, black-mouthed dogfish
German: Fleckhai
French: chien espagnol, pristure á bouche noire
Spanish: pintaroja bocanegra
Portuguese: boca-negra, leitão
Russian: Akúla koshátsj'ja pjatnístaja {tsjernorótaja}

Hringaháfur er fremur mjósleginn og smávaxinn háfur. Haus er tiltölulega flatur, trjóna er lengri en hún er breið og bogadregin fyrir endann. Kjaftur er nokkuð stór, en tennur eru smáar. Bakuggar eru mjög stuttir og afturbeygðir. Raufaruggi er langur, lengd hans meiri en fjarlægðin milli róta fremri og aftari bakugga. Sporður er langur og neðri fön allhá og skarð í henni aftast. Efri sporðrönd er sagtennt. Samstæðu uggarnir eru stórir. Húðtennur eru smáar nema randtennur sporðsins. Rákin er greinileg og sveigist niður á stirtlunni. Hængar geta orðið um 75 cm, hrygnur 90 cm.

Litur: Hringaháfur er ljósbrúnn á baki en kviður Ijósgrár. Á baki og hliðum eru dökkbrúnir hringlaga flekkir, afmarkaðir að mestu af ljósri rönd. Kjafthol er svart.

Heimkynni: Hringaháfur finnst í norð- austanverðu Atlantshafi, norður til Færeyja og Noregs til Þrándheims, í Norðursjó, umhverfis England, Skotland og Írland, suður til Kanaríeyja, Madeira og Senegal. Þá er hann í Miðjarðarhafi. Á Íslandsmiðum fannst hann ekki fyrr en árið 2006 en þá veiddist 54 cm löng hrygna í botnvörpu á Eldeyjarsvæðinu og er það eini fiskurinn sem frést hefur af við Ísland til þessa.

Lífshættir: Hringaháfur er botnlægur og heldur sig einkum á ytri hluta landgrunnsins og efsta hluta landgrunnshallans, á 200- 1200 m dýpi, en fer stundum grynnra, allt upp á 50 m dýpi. Hann hrygnir allt árið í Miðjarðarhafi, en mest á vorin og sumrin. Hann gýtur eggjum í pétursskipi, líkt og frændur hans gíslaháfur og jensensháfur. Pétursskip hringaháfsins hafa þó enga festiþræði á hornunum. Þau eru allt að 6 cm löng og 3 cm breið. Hringaháfurinn gýtur þeim ekki strax og þau eru fullmynduð, heldur þroskast þau nokkurn tíma í hrygnunum og hafa allt að 13 pétursskip fundist samtímis í einni hrygnu.

Fæða er einkum botnlægir hryggleysingjar, svo sem krabbadýr og smokkfiskar, en einnig smáir fiskar, t.d. laxsíldir.

Nytsemi er lítil, veiðist sem meðafli t.d. við rækjuveiðar í Miðjarðarhafi og Portúgal og stærstu fiskarnir eru nýttir til manneldis.

 

Byggt á bókinni, Íslenskir fiskar. ( Mál og menning 2013), Höfundar: Gunnar Jónsson og Jónbjörn Pálsson. (2013).

Did you find the content of this page helpful?