hörpuskel (icelandic)

Hörpudiskur

extrasDictionarySynonymsIcelandic:
hörpuskel
extrasDictionaryLang extrasDictionarySynonyms
Latin: Chlamys islandica
Danish: grønlandsøsters
Norwegian: haneskjell, hesteskjell
English: iceland scallop
German: Isländische Kammuschel, Nördliche Kammuschel
French: peigne islandais
Spanish: peine islándico
Portuguese: leque-islandês
Russian: Гребешок исландский / Grebeshók islándskij

Skeljar hörpudisksins eru eins og blævængur að lögun. Skeljarnar eru nánast jafnstórar og eru lítið eitt kúptar. Fíngerð rif ganga eins og geislar út frá nefinu. Við hjörina eru eyru sitt hvorum megin við nefið og er það fremra talsvert stærra en það aftara.

Hörpudiskurinn er nokkuð breytilegur á litinn. Hann getur verið gráhvítur, ryðrauður eða bleikur á litinn og er neðri skelin ljósari en sú efri. Ofan á skeljunum skiptast á ljósir og dökkir baugar sem liggja þvert á rifin og stafa af breytilegum vaxtarhraða. Hægt er að nota baugana til að aldursgreina skeljarnar. Fullvaxinn hörpudiskur er 8 til 11 cm á hæð.

Stór, sívalur vöðvi heldur skeljunum saman og er hann festur innan í báðar skeljarnar miðjar. Dýrið notar vöðvann til sunds og til að halda skelinni lokaðri. Umhverfis vöðvann eru innyfli, magasekkur og kynkirtlar hörpudisksins. Möttullinn er báðum megin innan á skeljunum, á honum eru tálknin en einnig ógrynni af augum í röð meðfram allri skelröndinni.

Við Ísland er hörpudiskur algengur allt í kringum landið, nema við suðurströndina Hörpudiskurinn heldur sig aðallega á hörðum botni, malarbotni eða grófum skeljasandsbotni og hefur fundist á 2 til 300 m dýpi. Mest heldur hann sig þó á 20 til 50 m dýpi.

Fæðu sína síar hörpudiskurinn úr sjónum. Með bifhárum lætur hann sjóinn streyma yfir tálknin sem sía fæðuagnirnar úr honum. Fæðan er blanda af svifþörungum og öðrum örsmáum lífrænum ögnum sem berast um með straumum yfir botninum.

Kyn hörpudisks eru aðskilin og er hrognasekkur kvendýrsins rauðleitur en karldýrið hefur hvítleitan svilpoka. Æxlun verður í júlí, þá losa dýrin kynfrumurnar í sjóinn. Eftir frjóvgun þroskast eggið í lirfu sem er sviflæg og rekur undan straumum. Í september verður lirfan botnlæg og byrjar að mynda um sig skel. Lirfurnar eru þá aðeins um 0,3 mm á stærð.

Á botninum vex skelin hratt til að byja með. Í lok fyrsta ársins er hún orðin um 1 cm í þvermál. Ári síðar er hún tæpir 3 cm. Þriggja ára þegar fyrstu skeljarnar verða kynþroska er hún rúmir 4 cm. Elstu skeljar hér við land eru yfir 20 ára gamlar.

Þó að hörpudiskurinn haldi sig oftast á sama stað á botninum getur hann synt. Þegar hann syndir snýr hann oftast skelröndinni fram en hjörinni aftur. Hann getur þó breytt um stefnu og synt með hjörina fram eða synt út á hlið. Á sundi opnar hann og lokar skeljunum í sífellu og þegar skeljarnar lokast streymir sjórinn út á þeirri hlið sem er gegnt sundáttinni og þrýstir hörpudisknum áfram.

 

Did you find the content of this page helpful?