rauðkóngur=hængurinn (icelandic)

Hornsíli

extrasDictionarySynonymsIcelandic:
rauðkóngur=hængurinn
extrasDictionaryLang extrasDictionarySynonyms
Latin: Gasterosteus aculeatus
Danish: trepigget hundestejle
Faroese: kompikk
Norwegian: trepigget stingsild
English: stickleback, three-spined stickleback, tiddler
German: Dreistacheliger Stichling
French: épinoche
Spanish: espinoso
Portuguese: esgana-gata
Russian: Колюшка трёхиглая / Kóljushka trjókhiglaja, Трёхиглая колюшка / Trjókhiglaja kóljushka

Hornsíli er lítill fiskur og þéttvaxinn, straumlínulaga og mesta hæð um miðjan bol. Haus er fremur þunnvaxinn og snjáldur er stutt. Kjaftur er skástæður og lítill- nær ekki aftur að augum. Neðri skoltur er framteygður. Smáar og oddhvassar tennur eru á skoltum. Augu eru stór. Afturrönd vangabeins er bein en tálknaloksrönd er bogadregin. Bolur er alllangur, stirtla fremur stutt og hún mjókkar aftur og er spyrðustæði mjög grannt. Bakuggi er aftarlega á bol og nær aftur á stirtlu. Framan við bakugga eru þrír gaddar, stundum fjórir - hornin á hornsílinu. Raufaruggi er andspænis aftanverðum bakugga og styttri. Framan hans er einn gaddur. Eyruggar eru allstórir. Kviðuggar eru einn broddgeisli (kviðuggagaddur) auk eins til tveggja liðgeisla. Hreistur vantar en á hliðum eru oft beinplötur. Rák er greinileg. Hornsíli er oftast 4- 6 cm en getur orðið 11 cm langt.

Litur er mjög breytilegur eftir kyni og árstíma. Á veturna eru hornsílin blágræn á baki og silfurlit að neðan en dökkna um sumartímann. Þegar að hrygningu líður fer að lifna yfir litnum hjá báðum kynjum, einkum þó hængunum sem verða fagurrauðir en hrygnurnar verða dökkbröndóttar á baki og gular á hliðum.

Geislar: B, II-IV+8—14,- R: 1 + 8-10,- hryggjarliðir: 29-33.

Heimkynni: Hornsíli á heima við Ísland, Færeyjar, Skandinavíu, Danmörku, í Eystrasalti og löndum að því, svo og við Bretlandseyjar og í Norðursjó og löndum sem að honum liggja og áfram allt suður í Miðjarðarhaf og Svartahaf og löndum sem að þessum höfum liggja. Þá er hornsíli við Grænland og Norður-Ameríku norðan 30- 32°N. Einnig er það í norðanverðu Kyrrahafi meðfram ströndum Bandaríkjanna og Kanada norður til Alaska svo og við Norðaustur-Asíu og Japan og víðar.

Hér er hornsílið algengt um allt land í ferskvatni, bæði á láglendi og upp til heiða og fjalla. Einnig í sjó og fjörupollum, lónum og ísöltu strandvatni.

Lífshættir: Hornsílið lifir í ferskvatni og í ísöltu vatni árósa og strandsjávar. Það heldur sig oftast á grunnum svæðum í vötnum allt niður á 20- 25 m dýpi í Þingvallavatni. Hrygning fer fram að vori og sumri til -  í maí til ágúst (í júní til júlí í Þingvallavatni) og býr hængurinn til kúlulaga hreiður á botninum úr slýþráðum. Þangað inn rekur hann síðan hrygnuna og á þá oft í illindum við aðra hænga um hylli hennar. Hrygnan hrygnir um 100 eggjum sem eru 1,5 til 1,9 mm í þvermál og flýtir sér síðan í burtu en hængurinn frjóvgar eggin og gætir þeirra síðan. Klak tekur 2-3 vikur og eru lirfurnar 2- 4,5 mm við klak. Hængurinn gætir lirfanna og síðan seiðanna fyrst í stað. Vöxtur er mishraður eftir því hvar þau lifa og skiptir hitastig yfir sumartímann Iíklega mestu máli. Í Þingvallavatni, sem er kalt, verða hornsílin kynþroska þriggja ára og eru þá að jafnaði um 5 cm löng. Í Mývatni, þar sem vatnshiti er löngum yfir 10° verða hornsílin kynþroska eftir eitt ár.

Fæða hornsílis er alls konar smádýr eins og krabbaflær, skordýr og lirfur þeirra, egg og seiði fiska, m.a. eigin afkvæmi, og eru það einkum hrygnurnar sem leggjast á þau.

Óvinir hornsílis eru margir, bæði meðal fiska og fugla. Má þar nefna bleikju (síla- bleikju), urriða, endur, kríur og fleiri en hornsílið reynir að verja sig með göddum sínum og spennir þá út eða leggur bara á flótta undan óvininum og reynir að fela sig. Skæður óvinur er lirfustig af bandormi einum, Scbistocepbalus solidus, sem oft ríður hornsílunum að fullu en þessi bandormur verður fullþroska í ýmsum fuglum.

Áður fyrr var talið að ýmis afbrigði væru af hornsíli eftir því hvernig þau væru brynjuð og var þá m.a. greint á milli bersíla (gymnura) sem halda sig einkum í ósöltu vatni, hálfbersíla (hemigymnura), hálfbrynsíla (semiarmata) í ísöltu vatni og brynsíla (trachura) sem eru einkum í sjó. Nú er litið svo á að hér sé um að ræða breytileika í stofngerð sem fer aðallega eftir mismunandi seltu í umhverfinu. Í Þingvallavatni eru tvö afbrigði hornsíla, þ.e. sílið sem heldur sig í tjarnarnálabreiðum á mjúkum botni og svokallað hraunsíli. Hraunsílið er hausstærra og yfirmynntara en sílið í tjarnarnálabeltinu. Uggar eru tiltölulega styttri á hraunsílinu og bakuggi lægri en stirtlan hærri.

Nytjar: Nytsemi hér er engin nema sem fæða annarra fiska og dýra, t.d. fugla. Sums staðar erlendis er það þó notað sem beita við álaveiðar. Það lifir góðu lífi sem skrautfiskur í fiskabúrum.

Byggt á bókinni, Íslenskir fiskar. ( Mál og menning 2013), Höfundar: Gunnar Jónsson og Jónbjörn Pálsson. (2013).

Meiri fróðleik um hornsíli má finna hér.

 

 

Did you find the content of this page helpful?